Tilkynnt var um viljayfirlýsinguna á flugsýningunni í París en sérfræðingar eru sammála um það að þar hafi Airbus stolið senunni þegar félagið kynnti til leiks langdrægustu farþegaþotu heims í flokki mjórra véla með einn farrýmisgang, Airbus A321XLR.
Viljayfirlýsingin IAG, sem á meðal annars breska flugfélagið British Airways og spænska flugfélagið Iberia, vakti þó einnig mikla athygli. Þótti hún vera mikil stuðningsyfirlýsing við Boeing þar sem mikil vandræði hafa verið á bandaríska flugvélaframleiðandanum vegna MAX-vélanna, sem eru í flugbanni vegna tveggja mannskæðra flugslysa.
Forsvarsmenn Airbus vissir um að fá tækifærið
Scherer sagði hins vegar á blaðamannafundi í París í dag að hann liti svo á að þrátt fyrir að skrifað hafi verið undir viljayfirlýsingu á milli Boeing og IAG, þýði það ekki að búið sé að ganga frá kaupunum. Og Airbus vill komast inn í samninginn.
„Við erum nokkuð viss um að við fáum að taka þátt til þess að tryggja að bestu mögulegu lausn fyrir IAG, sem er mikilvægur viðskiptavinur,“ sagði Guillaume Faury, forstjóri Airbus.
Viljayfirlýsing Boeing og IAG hefur nefnilega ekki síst vakið athygli fyrir þær sakir að IAG hefur hingað til aðeins notast við Airbus-vélar þegar kemur að mjóum þotum með einn farrýmisgang.
Fái Airbus ekki að bjóða í pöntunina þarf félagið engu að síður ekki að örvænta. Airbus segir ellefu flugfélög hafa pantað alls 226 vélar A321XLR. á meðan flugsýningin í París stóð yfir og nýja samninga um alls 363 þotur.
Meðal þeirra félaga, sem búin eru að tryggja sér pláss í framleiðsluröðinni, eru American Airlines með 50 þotur, Indigo Partners með 50 þotur, þar á meðal fyrir Wizzair, og Qantas með 36 þotur.