Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Kerecis hefur verið í undirbúningsferli hjá Kauphöllinni varðandi skráningu félagsins á hlutabréfamarkað á næstu misserum. Þetta herma áreiðanlegar heimildir Fréttablaðsins en valið mun standa milli kauphallarinnar á Íslandi annars vegar og í Toronto hins vegar.
Markmið skráningarinnar er að eiga greiðari aðgang að stofnanafjárfestum til að fjármagna ytri vöxt fyrirtækisins. Stjórnendur Kerecis horfa til vaxtarára stoðtækjaframleiðandans Össurar sem fjármagnaði yfirtökur á tíu fyrirtækjum í Bandaríkjunum á árunum 2000 til 2005 í kjölfar skráningar á hlutabréfamarkað.
Kerecis lauk fyrr á árinu fjármögnun fyrir jafnvirði rúmlega tveggja milljarða króna en miðað við gengið í hlutafjárhækkuninni gæti virði Kerecis verið allt að 12,4 milljarðar króna. Tekjur Kerecis námu 4,6 milljónum dala á síðasta ári en gert er ráð fyrir að þær meira en áttfaldist og verði komnar í 39 milljónir dala á næsta ári. Það kom fram í fjárfestakynningu sem Arion banki útbjó fyrr á árinu.
