Í tísti lofaði forsetinn O'Brien og sagðist hafa „unnið lengi og mikið“ með honum. O'Brien ætti eftir að eftir að standa sig vel.
Vika er síðan John Bolton, þriðji þjóðaröryggisráðgjafi Trump, sagði af sér eða var rekinn, allt eftir því hvort leggja beri trúnað á orð Bolton eða forsetans.
AP-fréttastofan segir að O'Brien hafi verið á meðal fimm kosta sem Trump íhugaði fyrir stöðuna. Sem sendifulltrúi í gíslatökumálum hjá utanríkisráðuneytinu hafi O'Brien unnið náið með fjölskyldum bandarískra gísla og ráðlagt ríkisstjórninni um gíslatökur. Í tíð George W. Bush og Barack Obama vann O'Brien að samstarfi einka- og opinberra aðila um umbætur í dómsmálum í Afganistan.
Frá 2008 til 2011 var O'Brien fulltrúi Bandaríkjaforseta í ráðgjafarnefnd um smygl á fornminjum og öðrum menningarverðmætum. Árið 2005 skipaði Bush forseti hann fulltrúa Bandaríkjanna í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. þar vann O'Brien með forvera sínum Bolton sem var þá sendiherra Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar.
Í starfi Repúblikanaflokksins hefur O'Brien unnið sem ráðgjafi fyrir forsetaframboð Scott Walker, fyrrverandi ríkisstjóra Wisconsin, Mitt Romney, fyrrverandi ríkisstjóra Massachusetts, og Ted Cruz, öldungadeildarþingmanns frá Texas.
Michael Flynn, hershöfðingi, var fyrsti þjóðaröryggisráðgjafi Trump árið 2017 en hann sagði af sér innan við mánuði eftir að hann tók formlega við stöðunni. Hann var sakaður um og játaði síðar að hafa logið að alríkislögreglunni um samskipti við rússneskan sendiherra. Við af honum tók H.R. McMaster. Þeim Trump kom þó illa saman og hætti McMaster í mars í fyrra. Bolton tók við af McMaster og entist í um eitt og hálft ár áður en ágreiningur hans og Trump leiddi til þess að hann hætti einnig.
I am pleased to announce that I will name Robert C. O'Brien, currently serving as the very successful Special Presidential Envoy for Hostage Affairs at the State Department, as our new National Security Advisor. I have worked long & hard with Robert. He will do a great job!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) September 18, 2019