„Ég get alveg sagt það að mikið af þessu sem er til umræðu núna, sem tengist innra skipulagi lögreglunnar og svo starfsmannamálum innan ríkislögreglustjóraembættisins, það hefur verið togstreita um þetta í töluverðan tíma,“ segir Vilhjálmur, sem var lögreglumaður á árunum 2004 til 2013, í samtali við Bítið í morgun.
Sú togstreita sé nú að koma upp á yfirborðið, þó svo að Vilhjálmur segist ekki upplifa vendingarnar sem valdabaráttu. Persónur og leikendur virðist ekki vera að sækjast eftir ákveðnum embættum. Deilurnar snúist frekar um skipulag lögregluembættanna.
Fleira komið þó til en óánægja með fyrirkomulag búninga- og bílamála, sem hefur verið fyrirferðamikið í fjölmiðlum. „Það eru tölvumálin, það er hversu víðtæk aðstoð sérsveitarinnar er við önnur embætti heldur en hér á höfuðborgarsvæðinu og annað slíkt,“ segir Vilhjálmur.

Tímatakmörk eðlileg
Hann undirstrikar að þessi togstreita hafi fengið að grassera lengi - „og ég er ekkert endilega viss um að það sé hægt að klára hana með þeim leikendum sem eru núna,“ segir Vilhjálmur.Aðspurður um hvort þetta þýði að þingmaðurinn vilji að Haraldur Johanessen, ríkislögreglustjóri, víki úr embætti segir Vilhjálmur: „Þegar togstreitan hefur verið að byggjast upp í svona langan tíma að þá þætti mér það ekki óeðlilegt,“ og bætir við að Haraldur hafi gegnt embætti ríkislögreglustjóra í 22 ár. Það sé langur tími í jafn valdamiklum stól og segir Vilhjálmur að sér þætti eðlilegt að einhver takmörk yrðu sett á skipunartíma ríkislögreglustjóra. Hann er skipaður til fimm ára í senn og segir þingmaðurinn að sér þættu tvö tímabil hæfileg, 10 ár í það heila.
Sambærilegar takmarkanir eigi við um skipunartíma annarra embættismanna ríkisins, eins og Þjóðleikhús- og Seðlabankastjóra. Vilhjálmur segist geta hugsað sér að beita sér fyrir slíku í tilfelli ríkislögreglustjóra, hafi dómsmálaráðuneytið ekki sjálft frumkvæði að því.
Vilhjálmur vill þó ekki benda til einhvers eins „vendipunktar“ sem geti skýrt togstreituna innan lögreglunnar. Óánægjan hafi smám saman aukist í gegnum árin. Hann segir að þrátt fyrir ólguna verði það ekki tekið af Haraldi að hann hafi verið í framlínu lögreglunnar, embættis sem hefur notið mikils trausts almennings á undanförnum árum.
Viðtalið við Vilhjálm má nálgast í heild hér að neðan.