Bresk stjórnvöld reyna nú að koma strandaglópum aftur heim, þeim að kostnaðarlausu.
Ákvörðun var tekin klukkan eitt í nótt um að leggja niður starfsemi Thomas Cook, bresku ferðaskrifstofunnar. Þetta sagði Tim Jonson, yfirmaður hjá bresku flugmálastofnuninni, í nótt þegar ljóst var að fyrirtækið, sem rekur sögu sína aftur til þess þegar Thomas Cook stofnaði fyrirtæki utan um ferðalög bindindismanna árið 1841, myndi falla. Gjaldþrotið bitnar á sex hundruð þúsund ferðamönnum, þar af um hundrað og fimmtíu þúsund Bretum.
Fyrirtækið hafði átt í fjárhagsvandræðum sem skýrast meðal annars af því að bókunum hefur fækkað vegna óvissu sem hefur myndast í kringum útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Sóst var eftir 200 milljóna punda innspýtingu sem fékkst hvergi og því fór sem fór.
Peter Frankhauser framkvæmdastjóri bað starfsfólk afsökunar og ferðalanga sömuleiðis. Nú yrði unnið með yfirvöldum að því að koma ferðamönnum aftur heim. „Ég veit að þetta eru sláandi tíðindi fyrir marga og munu þau valda miklum kvíða, stressi og óreiðu.“
Ljóst er að það verður töluvert verk að koma strönduðum ferðalöngum aftur heim til Bretlands. Bresk flugmálayfirvöld höfðu í morgun tekið á leigu 45 þotur sem áttu að fljúga 64 ferðir. Flestar til Evrópu en einnig til Tyrklands, Bandaríkjanna, Norður-Afríku, Karíbahafsins og Mið-Ameríku.
Um 600 þúsund viðskiptavinir bresku ferðaskrifstofunnar Thomas Cook eru nú strandaglópar víða um heim eftir að fyrirtækið var lýst gjaldþrota í nótt. Þær eru því ófáar raunasögurnar sem birst hafa í erlendum fjölmiðlum í dag þar sem fólk lýsir því hvaða áhrif gjaldþrotið hefur haft á ferðaáætlanir þeirra.