Viðskipti erlent

Nvidia metið á 615 billjónir króna

Samúel Karl Ólason skrifar
Jensen Huang, forstjóri Nvidia.
Jensen Huang, forstjóri Nvidia. AP/Manuel Balce Ceneta

Fyrirtækið Nvidia varð í dag rúmlega fimm billjón dala virði, fyrst allra fyrirtækja á hlutabréfamarkaði í heiminum. Virði hlutabréfa Nvidia hafa hækkað gífurlega í virði á undanförnum árum, samhliða miklum vexti í gervigreindargeiranum sen félagið framleiðir tölvubúnað sem er einkar vinsæll í gagnaver sem notuð eru til að keyra mállíkön heimsins.

Til að ná þessum áfanga þurfti virði hlutabréfa Nvidia að fara í 205,76 dali á hlut en samkvæmt frétt Wall Street Journal fór virðið upp í 210 í dag. CNBC segir virðið hafa hækkað um fimm prósent í dag en rúm fimmtíu prósent á undanförnu ári.

Fimm billjónir dala samsvara um 615 billjónum króna (615.000.000.000.000), lauslega reiknað.

Nvidia er langverðmætasta fyrirtæki heims og er í raun stærra en AMD, Arm Holdings, ASML, Broadcom, Intel, Lam Reasearch, Micron, Qualcomm og Taiwan Semiconductor Manufacturing samanlagt. Þetta eru helstu keppinautar Nvidia á sviði örflaga og skjákorta, sem eru sérstaklega vinsæl þegar kemur að gagnaverum.

Jensen Huang, forstjóri Nvidia, lýsti nýverið því yfir að forsvarsmenn fyrirtækisins byggjust við því að gera samning við ríkisstjórn Bandaríkjanna um kaup á örflögum fyrir fimm hundruð milljarða dala og að til stæði að gera sjö nýjar ofurtölvur fyrir bandarísk yfirvöld.

Þá tilkynntu forsvarsmenn Nvidia einnig á dögunum að fyrirtækið myndi eignast stóran hlut í Nokia og að þau myndu saman vinna að þróun 6G fjarskiptatækni.

Bólumyndun?

Virði bandarískra tæknifyrirtækja hefur aukist gífurlega að undanförnu og þá að miklu leyti vegna mikilla væntinga til gervigreindar á komandi árum. Bæði Apple og Microsoft rufu til að mynda fjögurra billjóna dala múrinn í gær.

Sjá einnig: Nvidia verð­mætasta skráða fyrir­tæki heims

Forsvarsmenn tæknifyrirtækja hafa varið einstaklega miklum peningum í uppbyggingu innviða fyrir þróun gervigreindar. Þessar fjárfestingar fara að mestu í gagnver.

Enn sem komið er, eru tekjur innan þessa geira þó tiltölulega litlar.

Viðvaranir um mögulega bólumyndun heyrast víða þessa dagana. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur meðal annarra varað við mögulegri offjárfestingu í þessum geira.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×