Skoðun

Brennur húsið? - Opið bréf til heilbrigðisráðherra

Ómar Torfason skrifar
Ágæti ráðherra,

„AÐGERÐA ER ÞÖRF HÉR OG NÚ

Vinstri græn telja brýnt að snúa af braut einkarekstrar og verktöku í heilbrigðisþjónustu og hindra að hér festist í sessi tvöfalt kerfi þar sem fjársterkir einstaklingar geta keypt sér heilbrigðisþjónustu sem stendur öðrum ekki til boða.“

Þannig hljóða upphafsstef stefnu VG í velferðarmálum undir ofangreindum lið, en hér er vitnað beint í heimasíðu flokksins. Það er sem sé stefna flokksins að snúa sem fyrst af braut einkarekstrar og verktöku í heilbrigðisgeiranum, þannig að ekki myndist tvöfalt kerfi. Eitthvað virðist mér hér pottur brotinn. Lítum ögn á stöðuna:

Ég er sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfari hér á höfuðborgarsvæðinu og starfa í beinum tengslum við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ), og hefur verið litið svo á frá upphafi, að tilgreindur verksamningur falli undir svokallaðan einkasamning, þ.e. að mér er óheimilt að leggja viðbótarálag á taxtann, s.s. komugjald, sem og að starfa sem sjúkraþjálfari utan samnings og krefja mína skjólstæðinga fulls gjalds, enda á hver og einn að njóta fyrirgreiðslu SÍ samkvæmt almannatryggingalögum. Þannig var frá því gengið, að ekki yrði um tvöfalt kerfi að ræða, heldur skyldi jafnræði ríkja meðal allra dýranna í skóginum.

Nú er í gangi krafa um útboð varðandi sjúkraþjálfun hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það hefur óhjákvæmilega kúvendingu í för með sér. Ekki verður séð fyrir að hver og ein stöð, þ.e. fyrirtækiskennitala, muni svara kallinu, og verður reyndar ekki séð að boðið verði í pakkann þar sem ég starfa. Það mun hafa sitthvað í för með sér fyrir slíkar stofur:

  1.  Viðkomandi stofa mun fara af samningi við SÍ og segjast á Guð og gaddinn, ef svo ber undir. 
  2. Þeir skjólstæðingar sem njóta fyrirgreiðslu hins opinbera s.s. vegna örorku eða aldurs, verða óhjákvæmilega að leita sér þjónustu á þeim stöðum sem verða sér úti um mannauðskvóta. Þar með lýkur öllum persónulegum tengslum, auk þess sem þjónustan gæti verið víðs fjarri. Við höfum/höfðum reyndar lyf, að Ferliþjónustunni ógleymdri, en óvíst er að hún taki við auknu álagi að öllu óbreyttu. Menn boða þó byltingu með Borgarlínunni.
  3. Það mun pottþétt myndast öflugra tvöfalt kerfi en nú er. Reikna má með að bótaþeginn neyðist til að leita á náðir mannauðskvótagreifanna og verði að sætta sig við (mis)langar biðraðir, s.s. breska NHS-kerfið býður upp á, meðan þeir sem hafa eitthvað milli handanna sjái sér fært að leita til meðferðaraðila utan SÍ og greiða svo sem sett er upp fyrir þá þjónustu. Til viðbótar má gera ráð fyrir að í einhverjum tilvikum slái menn af taxtanum og fari svart, þ.e. enn eitt kerfið. 
  4. Krafa EES er að öll verksala innan heilbrigðiskerfisins fari í útboð. Við erum hér, auk sjúkraþjálfunar, að tala um lækna, bæði almenna og sérfræðinga, hjúkrunarfræðinga, tannlækna, iðjuþjálfa, mögulega sálfræðinga og jafnvel fleiri. Það er því eftir nokkru að slægjast út frá heildarmyndinni. VG tilgreinir, að ekki megi koma upp kerfi þar sem fjársterkir aðilar geti keypt sér heilbrigðisþjónustu. Það er og. Við má bæta að fjársterkir aðilar geta mögulega keypt upp helstu þætti heilbrigðisþjónustunnar, myndað stórar einingar, og yfirtekið markaðinn. Það er flest falt fyrir góðan pening. Þetta er samsvarandi til staðar í sjávarútveginum. 
Tökum dæmi: Skjólstæðingur minn einn átti erindi á ótilgreinda heilsugæslustöð um daginn, þar sem hann greiddi „x“ upphæð fyrir blóðrannsókn, auk þess sem hann greiddi kr. 1.200,- í komugjald, þ.e. gjald utan samnings stofnunarinnar við SÍ. Ef ég svæfi með koddann fullan af seðlum, þá mundi ég hiklaust skoða þann möguleika að komast inn í kerfi sem þetta, þar sem arðgreiðslur geta mögulega orðið allvænar. 

Einkarekstur er staðreynd í nútíma samfélagi. Landinn er misfjáður, og var almannatryggingakerfið upphaflega hugsað sem jafnræði til aðgengis að heilbrigðisþjónustunni. Þannig var í reynd enginn eða lítill munur á Jóni og séra Jóni. Má ætla að þá hafi fyrirgreiðslupólitíkin fyrst og fremst legið í innbyrðis tengslum. Þá gilti einnig mottóið: „Svona gerum við hreint ekki.“

Nú er öldin önnur og hin eiginlega siðfræði á (hröðu?) undanhaldi. Hver er sjálfum sér næstur. Þess vegna kann að teljast í lagi að klippa á öll persónuleg tengsl í endurhæfingunni, enda væntanlega aukaatriði út frá ótilgreindum alþjóðlegum staðli, senda þá sem minna mega sín mögulega langar leiðir í mislangar biðraðir í misjöfnum veðrum, og viðhafa að endingu eignaupptöku hjá fjölda stofueigenda sem ná á engan hátt að uppfylla þann alþjóðlega gæðastaðal sem hið opinbera leggur til grundvallar sínum kröfum.

Þú tókst við Velferðarþjónustuhúsinu í kjölfar síðustu kosninga og fannst, hvað ég hef lesið og heyrt, að sitthvað mætti þar vera á annan veg en reyndin var og er. Það lítur svo út fyrir mér frá mínum bæjardyrum séð, að þú hafir í upphafi vegferðar hreinlega fórnað höndum og borið einhvers konar hreinsunareld að öllu húsinu í stað þess að taka til í þeim herbergjum sem ógnuðu þinni hreinlætisvitund.

Það er miður, að flokkur sem biðlar til hinna lægra settu í samfélaginu skuli á sama tíma hrekja þá hina sömu út í öngstræti hins tvöfalda kerfis.

Höfundur er sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfari.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×