Innlent

Yfir 200 grindhvali rekið á land frá 2009

Andri Eysteinsson skrifar
Björgunarsveitarmenn frá Ársæli aðstoða strandaðan Grindhval á Seltjarnarnesi í ágúst.
Björgunarsveitarmenn frá Ársæli aðstoða strandaðan Grindhval á Seltjarnarnesi í ágúst. Vísir/Vilhelm
237 hvalrekar voru skráðir á tíu ára tímabili frá 1. janúar 2009 til 9. október 2019. Þetta kemur fram í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni, þingmanni utan flokka.

Fyrirspurn Andrésar, sem gekk út úr þingflokki Vinstri Grænna í gær, sneri að fjölda hvalreka ásamt því hvaða rannsóknir hefðu verið gerðar á strönduðu hvölunum og á aðferðum til þess að koma í veg fyrir hvalreka á Íslandsstrendur.

Í svari ráðherra við fyrirspurninni kemur fram að ekki hafi verið gerð fræðileg úttekt á hugsanlegum tengslum milli almennrar skipaumferðar og tíðni hvalreka við strendur landsins. Erlendar rannsóknir sýni þó fram á að árekstrar hvala og skipa geti verið mikilvægur þáttur í dánartíðni hvala.

Mikill fjöldi grindhvala hefur rekið á land á undanförnum 10 árum en samkvæmt svari ráðherra hafa 214 grindhvalir rekið á land. 60 ráku á land á Langanesi í byrjun september í ár og á Snæfellsnesi rak 50 hvali á land þann í sumar. 53 ráku þá á land á Snæfellsnesi í september 2013.

Hnísur voru 11 talsins, Búrhvalir 33 og Steypireyðar sem ráku á land á tímabilinu voru tvær. Einn Léttir rak á land og var það í apríl 2015.

Svar ráðherra við fyrirspurninni má sjá í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×