Flugfélagið Norwegian hefur ákveðið að hætta beinu flugi frá Kaupmannahöfn og Stokkhólmi til Bandaríkjanna og Taílands.
Norrænir fjölmiðlar greina frá þessu í morgun. Er haft eftir Charlotte Holmbergh Jansson, upplýsingafulltrúa Norwegian, að síðustu flugferðirnar á þessum leiðum verði farnar þann 29. mars á næsta ári. Flugfélagið mun þó áfram fljúga til Bandaríkjanna og Taílands frá Gardermoen-flugvelli í Osló.
Aðspurð um hvað verði um viðskiptavini sem eigi bókaðar ferðir eftir 29. mars á þessum leiðum segist Holmbergh Jansson ekki halda að það eigi við um marga. Fáir eigi bókaðar slíkar ferðir. En flugfélagið muni reyna að tryggja viðskiptavinum sínum ferðir í gegnum Osló eða London eða þá endurgreiða ferðirnar.
Ástæða þess að flugfélagið hætti umræddum flugleiðum er að gera flugfélagið ábatasamara og að áhersla verði lögð á aukna tíðni ferða til annarra áfangastaða í Evrópu.
„Skandinavía er ekki nægilega stór fyrir flug milli heimsálfa frá Osló, Stokkhómi og Kaupmannahöfn,“ er haft eftir Matthew Wood, háttsettum stjórnanda hjá Norwegian.
