Körfubolti

Sportpakkinn: Þriðja tap Snæfells í röð

Arnar Björnsson skrifar
Chandler Smith skoraði 15 stig fyrir Snæfell.
Chandler Smith skoraði 15 stig fyrir Snæfell. vísir/vilhelm
Keflavík skoraði fimm fyrstu stigin gegn Snæfelli í Domino's deild kvenna í gærkvöldi og var með frumkvæðið allan tímann.

Daniela Wallen Morillo var sterk í Keflavíkurliðinu, skoraði 31 stig, tók tólf fráköst og gaf átta stoðsendingar. Irena Sól Jónsdóttir kom næst með 13 stig og Katla Rún Garðarsdóttir skoraði tólf.

Fimmtán stigum munaði á liðunum í hálfleik. Snæfell náði aldrei að saxa nógu mikið á forystuna til að gera leikinn spennandi. Keflavík vann 89-66.

Keflavík hefur unnið fjóra leiki en tapað þremur, með eins stigs mun fyrir KR, fimm stigum gegn Skallagrími á heimavelli og með 31 stigs mun fyrir Val. Á laugardag kemur KR í heimsókn í Blue höllina.

Anna Soffía Lárusdóttir og Chandler Smith voru stigahæstar hjá Snæfelli, skoruðu 15 stig hvor. Snæfell tapaði þriðja leiknum í röð, einu sigrarnir í vetur eru gegn Breiðabliki og Grindavík.

Klukkan 21:15 í kvöld verður þáttur um Domino's deild kvenna á Stöð 2 Sport þar sem farið verður yfir fyrstu sjö umferðirnar á leiktíðinni.

Klippa: Sportpakkinn: Öruggt hjá Keflvíkingum
 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×