Fótbolti

Johan Cruyff varnarmannanna er sextugur í dag og fékk kveðju frá öllum hetjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Franco Baresi lyftir bikarnum eftir að AC Milan vann Evrópukeppni meistaraliða á Nývangi 24. maí 1989.
Franco Baresi lyftir bikarnum eftir að AC Milan vann Evrópukeppni meistaraliða á Nývangi 24. maí 1989. Getty/Alessandro Sabattini

Franco Baresi, fyrirliði hins magnaða AC Milan liðs á níunda og tíunda áratugnum, heldur upp á sextugsafmælið sitt í dag. Hann fæddist 8. maí 1960.

AC Milan fékk allar hetjur ítalska fótboltans á níunda og tíunda áratugnum til að senda „Il Capitano“ kveðju í tilefni dagsins. Sumir voru hugmyndaríkari og skemmtilegri en aðrir.

Það er ekki aðeins gaman að sjá kveðjurnar heldur einnig að sjá hvernig þessir heimsfrægu fótboltamenn, frá síðustu öld, líta út í dag.

Þarna voru menn eins og Paolo Maldini, Alessandro Costacurta, Carlo Ancelotti, Roberto Donadoni og Roberto Baggio svo einhverji séu nefndir en líka Hollendingarnir Marco van Basten og Frank Rijkaard.

Marcel Desailly og Roberto Baggio sendu honum líka kveðju sem og George Weah, sem spilaði með Baresi en er nú forseti Líberíu. Weah sendi kveðjuna úr sjálfum forsetastólnum.

Það tala allir um fyrirliðann sinn en Franco Baresi var mikill leiðtogi hjá bæði AC Milan og ítalska landsliðinu.

Marco van Basten lofar hann líka mikið og það vegur vissulega þungt þegar Hollendingur kallar þig „Johan Cruyff varnarmannanna“ eins og Van Basten sagði um Franco Baresi í kveðju sinni.

Franco Baresi spilaði allan feril sinn með AC Milan, frá 1977 til 1997, og lék yfir 700 leiki fyrir félagið. Hann var fyrirliði liðsins á fimmtán af þessum tuttugu tímabilum sem er magnað.

Franco Baresi varð sex sinnum ítalskur meistari með AC Milan og vann Evrópukeppni meistaraliða þrisvar sinnum með félaginu.

Franco Baresi spilaði alltaf í treyju númer sex og þegar hann hætti árið 1997 þá tók félagið þá ákvörðun að taka númerið úr notkun til heiðurs honum.

Hér fyrir neðan má sjá kveðjurnar sem Franco Baresi fékk í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×