Innlent

Leituðu að bílum sem þeir höfðu skilið eftir heima

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglustöðin í Flatahrauni.
Lögreglustöðin í Flatahrauni. Vísir/vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leysti nýverið tvö keimlík en erfið mál á einum degi í Hafnarfirði. Maður mætti á lögreglustöðina í Flatahrauni og sagði að bíl hans hefði verið stolið á meðan hann var í verslun Krónunnar þar skammt frá. Í færslu lögreglunnar á Facebook segir að gamalreyndur og skilningsríkur lögregluþjónn hafi fljótt leyst málið.

Umræddur maður hafði tvo bíla til umráða. Hann hafði farið í búð á öðrum þeirra en að innkaupunum loknum var hann sannfærður um að hafa farið á hinum bílnum. Það var því eðlilegt að hann hafi ekki fundið bílinn sem hann leitaði að.

„Rúmlega hálftíma síðar gerðist hið ótrúlega að annar maður kom á lögreglustöðina og tilkynnti að bílnum hans hefði einnig verið stolið,“ segir í færslu lögreglunnar.

Sá maður hafði einnig leitað að bíl sínum við Krónuna. Lögregluþjónninn gamalreyndi og skilningsríki sagði þeim manni sögu mannsins sem hafði komið þar skömmu áður og rann upp fyrir honum ljós. Hann var einnig að leita að vitlausum bíl.

Umræddur lögregluþjónn segist sannfærður um að mennirnir væru ekki Hafnfirðingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×