Innlent

Íslenska ríkið braut ekki á Carli vegna hatursorðræðudóms

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mannréttindadómstóll Evrópu er staðsettur í Strasbourg.
Mannréttindadómstóll Evrópu er staðsettur í Strasbourg. EPA/PATRICK SEEGER

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vísað frá máli Carls Jóhanns Lilliendahl gegn íslenska ríkinu. Hann taldi íslenska ríkið hafa brotið á mannréttindum sínum er hann var sakfelldur fyrir hatursorðræðu. Dómstólinn telur að ummæli Carls hafi falið í sér hatursorðræðu.

Málinu var vísað frá í morgun og í tilkynningu frá dómstólinum segir að niðurstaða dómsins hafi verið einróma. Segir í niðurstöðu Mannréttindadómstólsins að ekki sé ástæða til þess að efast um dóm Hæstaréttar í máli Carls frá árinu 2017.

Forsaga málsins er sú að Carl Jóhann lét tiltekin ummæli um samkynhneigð falla í athugasemd við frétt á Vísi. Í fréttinni var fjallað um ályktun sem bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar hafði samþykkt og laut að gerð samstarfssamnings við Samtökin ´78 um svokallaða hinseginfræðslu í grunnskólum sveitarfélagsins.

Voru ummælin kærð til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu af Samtökunum 78 og í ákæru var manninum gefin að sök hatursorðræða með fyrrgreindum ummælum og að hafa á þann hátt brotið gegn almennum hegningarlögum. Málið fór fyrir öll dómstig hér á landi og komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ummælin hafi verið alvarleg, gróflega meiðandi og fordómafull. 

Undir þetta tekur Mannréttindadómstólinn og bætir við að ekkert í ályktun Hafnarfjarðarbæjar hafi gefið tilefni til þess að vekja upp jafn hörð viðbrögð og komu fram í athugasemd Carls. Málsmeðferð málsins hjá dómstólum hér á landi, sem hafi falið í sér vandlega íhugun á því hvort vegi þyngra, tjáningarfrelsi Carls eða réttindi minnihlutahópa, hafi verið sanngjörn og eðlileg.

Var málinu því vísað frá Mannréttindadómstólinum og telst íslenska ríkið því ekki hafa brotið á mannréttindum Carls.

Úrskurð Mannréttindadómstólsins má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×