Innlent

Segir framgöngu lög­reglunnar í Banda­ríkjunum hræði­legt mál

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. Vísir/EPA

„Þetta er auðvitað hræðilegt mál. Að ganga þannig fram gagnvart þessum manni á sér engar eðlilegar skýringar enda er niðurstaðan sú að þeir drepa hann þarna og hann deyr við þessar aðstæður,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra um dauða George Floyd í fimmtánda þætti Pólitíkurinnar, hlaðvarps Sjálfstæðisflokksins, sem birtur var í dag.

„Hins vegar liggur alveg fyrir að þetta er ekki bara þetta. Það er eitthvað undirliggjandi og fólk hefur upplifað misrétti,“ sagði Guðlaugur.

Hann sagði mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að nýta rödd okkar, tala gegn misrétti og mannréttindabrotum og nýta okkur okkar stöðu. „Það er okkar skylda, sem erum svo lánsöm að búa við þessi sjálfsögðu gildi, að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að aðrir jarðarbúar geti fengið að njóta þess.“

„Við Íslendingar erum ekkert að fara að breyta hlutunum í grundvallaratriðum. Við getum ekki beitt neina þvingunum eða neitt slík en við getum hins vegar látið rödd okkar heyrast. Gengið á undan með góðu fordæmi og þetta er eitthvað sem okkur finnst sjálfsagt en er ekkert svo sjálfsagt.“

Hann sagði ljóst að hlutirnir hafi miðast í rétta átt en eitthvað í Bandarísku þjóðfélagi sé til staðar undir niðri sem þurfi að taka á. „Við skulum ekki halda það að fólk sé ekki að láta lífið út af atgöngu lögreglumanna eða yfirvalda út um allan heim. Og reyndar er það þannig að við Íslendingar ásamt þeim löndum sem við berum okkur helst saman við, við erum í minnihluta jarðarbúa sem búum við réttindin sem okkur finnst vera alveg sjálfsögð.“

„Það sem verst er er að hlutirnir að mörgu leyti eru að fara í ranga átt.“

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×