Fótbolti

„Ég er for­seti, leik­maður og þjálfari en fæ bara borgað fyrir að vera leik­maður“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Zlatan í leiknum gegn Juventus í gær þar sem hann lék vel frá byrjun.
Zlatan í leiknum gegn Juventus í gær þar sem hann lék vel frá byrjun. vísir/getty

Zlatan Ibrahimovic segir að AC Milan hefði orðið meistari á Ítalíu hefði hann spilað með félaginu frá upphafi tímabilsins.

Mílanóliðið vann endurkomusigur á Juventus í gær. Eftir að hafa lent 2-0 undir þá skoruðu heimamenn í Mílan fjögur mörk og unnu 4-2 en Zlatan skoraði eitt og lagði upp annað.

Klippa: Milan 4-2 Juventus

Eðlilega var hann svo í stuði eftir leikinn, eða svokölluðu Zlatan-stuði, en Zlatan kom til félagsins í janúar frá LA Galaxy.

„Ég er forseti, leikmaður og þjálfari en eina neikvæða við það er að ég fæ bara borgað fyrir að vera leikmaður,“ sagði Zlatan við DAZN eftir leikinn í gær. „Ef ég hefði verið hérna frá upphafi tímabilsins þá hefðum við unnið deildina.“

Sá sænski á einn mánuð eftir af samningi sínum við AC Milan og hann veit ekki hvað gerist eftir sumarið.

„Við sjáum til. Það er enn mánuður eftir sem ég get notið en þetta er undarleg staða. Við ráðum ekki yfir þessu. Ég veit ekki hvort að stuðningsmennirnir hafi séð mig í síðasta skipti.“

„Það er undarlegt að spila bak við luktar dyr. Ef San Siro hefði verið fullur þá hefði þetta verið yndislegt kvöld,“ sagði Svíinn.

AC Milan er í fimmta sætinu, 26 stigum á eftir toppliði Juventus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×