Landrisið í Svartsengi nálgast þrjá sentímetra á sex dögum. Landris hefur verið mælt á þessu svæði í þrjá áratugi og hefur það aldrei mælst jafn hratt áður. Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, segir þýðingarmikið að fylgjast mjög vel með. Erfitt sé að segja til um framhaldið.
„Eins og málið er núna, þá virðist þetta vera á fleygiferð. Það hefur ekki breyst neitt hraðinn frá því þetta kom fyrst fram fyrir sex dögum síðan og þetta fellur bara beina línu, eins og er,“ segir Páll.
Hann segir framhaldið geta farið á ýmsa vegu.
„Ein sviðsmyndin er að þetta hreinlega hætti. Við þekkjum til þess að svona landris tekur skyndilega aðra stefnu. Annað hvort hættir það eða herðir á sér. Það er hvoru tveggja til í þessu,“ segir Páll.
Hann sagði sömuleiðis erfitt að segja til um hve hröð atburðarásin gæti verið ef eldgos yrði. Sagan hefði sýnt að hraðinn gæti verið alla vega.
Rætt var við Pál í aukafréttatíma Stöðvar 2, þar sem hann fór yfir mælingar og gögn sem snúa að Svartsengi. Hægt er að horfa á það hér að neðan.