Fótbolti

Lukaku segist vera nýi kóngurinn í Mílanó

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lukaku var vægast sagt ánægður eftir að hafa skorað gegn AC Milan í gær.
Lukaku var vægast sagt ánægður eftir að hafa skorað gegn AC Milan í gær. vísir/getty

Romelu Lukaku segist vera nýi kóngurinn í Mílanó eftir sigur Inter á AC Milan, 4-2, í ítölsku úrvalsdeildinni í gær.

Inter var 0-2 undir í hálfleik en kom til baka, skoraði fjögur mörk í seinni hálfleik og skaust á topp deildarinnar.

Lukaku skoraði fjórða og síðasta mark Inter í uppbótartíma. Belginn fagnaði vel og innilega og var enn í skýjunum löngu eftir að lokaflautið gall.

„Það er nýr kóngur í bænum,“ skrifaði Lukaku á Twitter og birti mynd af sér að fagna markinu.



Lukaku virtist þar senda sínum gamla samherja hjá Manchester United, Zlatan Ibrahimovic, smá pillu en sá sænski er vanur að tala digurbarklega um eigin afrek.

Zlatan skoraði seinna mark Milan og lagði það fyrra upp og skaut í stöng í uppbótartíma þegar hann gat jafnað í 3-3. Þess í stað skoraði Lukaku fjórða mark Inter og gulltryggði sigur þeirra bláu og svörtu.

Lukaku hefur skorað níu mörk í síðustu níu leikjum sínum fyrir Inter. Hann hefur alls skorað 21 mark í 30 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu.

Klippa: Inter 4-2 AC Milan


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×