Angelo Ogbonna, leikmaður West Ham, er ekki sáttur við framgöngu ensku úrvalsdeildarinnar og stjórnvalda þar í landi varðandi kórónuveiruna. Hann hefði viljað að stjórnvöld myndu grípa í taumanna fyrr.
„Ég er ánægður og það er léttir að öllu hafi verið frestað núna, einnig neðri deildum. Það var nánast eins og þau vildu hunsa þetta alvarlega vandamál. Þetta er ekki bara í fótbolta, þetta er innbyggt í hugarfar Englendinga. Þeir eru ekki enn búnir að átta sig á hættunni sem fylgir þessari veiru,“ sagði Ogbonna og var ekki skemmt.
„Það er gjörsamlega óásættanlegt að leik okkar gegn Arsenal hafi verið leyft að fara fram. Þeir voru nýbúnir að spila við Olympiakos og forseti þeirra greindist með Kórónuveiruna. Það er eins og þau hafi verið að bíða eftir að einhver myndi deyja áður en þau myndu bregðast við,“ bætti sá ítalski við.
Fjórum efstu deildunum á Englandi hefur verið frestað til 4. apríl og óljóst hvort að keppni muni hefjast aftur þá.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal greindist með veiruna í fyrradag, sem og Callum Hudson-Odoi leikmaður Chelsea.
