Öndunarerfiðleikar barna, kynferðislegt ofbeldi, sálræn áföll, heimilisofbeldi og bráðaflokkun við hópslysi voru meðal viðfangsefna um fimmtíu hjúkrunarfræðinga, sem eru að læra bráðahjúkrun á þriggja daga námskeiði, sem haldið var á Laugarvatni í vikunni. Leikfangabílar komu líka við sögu á námskeiðinu.

Námskeiðið sem fór fram í húsnæði Háskóla Íslands á Laugarvatni var bæði bóklegt og verklegt. Ítrustu sóttvarna var gætt. Nemendurnir eru í tveggja ára framhaldsnámi í bráðahjúkrun og komu af öllu landinu.
„Við fjölluðum meðal annars um ofbeldi og hvernig bráðahjúkrunarfræðingar taka á móti fólki sem hefur lent í ofbeldi og bráðhjúkrunar barna með öndunarerfiðleika, sálræn áföll, hjúkrunar aðstandenda og svona má lengi telja,“ segir Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, dósent í bráðahjúkrun við Háskóla Íslands.

Þórdís segir mikið álag á bráðadeildum sjúkrahúsanna, ekki síst úti á landi, það þekki yfirmaður bráðadeildarinnar á Selfossi á eigin skinni.

„Já, það er mjög mikið álag, flest hópslys hafa verið í okkar umdæmi en við erum orðin því miður en kannski gott, orðin mjög þjálfuð í móttöku slasaðra í hópslysum,“ segir Birna Gestsdóttir deildarstjóri bráðamóttökunnar á Selfossi.
Á einni kennslustöðinni var verið að æfa og þjálfa viðbrögð undan sjúkrahúsi en þá var m.a. notast við leikfanga bíla sem voru í hlutverki sjúkrabíla, lögreglubíla og slökkviliðsbíla.
Þátttakendur námskeiðsins voru mjög ánægðir með að fá að vera á Laugarvatni á námskeiðinu.
„Það er náttúrulega frábært að komast út og góðar aðstæður hér til að kenna og taka þátt, þannig að þetta er bara alveg frábært,“ segir Tómas Eldjárn Vilhjálmsson, hjúkrunarfræðingur og nemandi í bráðahjúkrunar.

