Innlent

Þyrla Gæslunnar kölluð út vegna vélar­vana fiski­skips

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Áhöfnin á TF-EIR var stödd á Reykjavíkurflugvelli þegar útkallið barst og gat brugðist hratt við.
Áhöfnin á TF-EIR var stödd á Reykjavíkurflugvelli þegar útkallið barst og gat brugðist hratt við. Vísir/Vilhelm

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út á ellefta tímanum í gærkvöldi vegna 160 tonna fiskiskips sem varð vélarvana suðaustur af Berufirði.

Skipið var um sjö mílur frá landi þegar ósk um aðstoð barst og hafði áhöfnin kastað út akkeri þar sem álandsvindur var á svæðinu. Þrír voru um borð.

Áhöfnin á TF-EIR var stödd á Reykjavíkurflugvelli þegar útkallið barst og gat brugðist hratt við en að auki var björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Hornafirði kallað út auk báts Fiskeldis Austfjarða sem meðal annars var mannaður björgunarsveitarmönnum frá Djúpavogi.

Þyrlan tók á loft rétt fyrir ellefu en skömmu síðar tókst áhöfn fiskiskipsins að koma vél þess í gang og sigldi austur fyrir Papey á ákjósanlegri stað ef skipið yrði aftur vélarvana.

Þyrlan hélt þó ferð sinni áfram til öryggis, að því er segir í tilkynningu frá Gæslunni, en björgunarskipið frá Hornafirði var afturkallað.

Laust fyrir miðnætti var fiskeldisbáturinn kominn að skipinu úti fyrir minni Berufjarðar og héldu þau í samfloti áleiðis inn á Djúpavog og þá var þyrlan afturkölluð. Gert var ráð fyrir því að skipin kæmu til Djúpafjarðar um eitt í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×