Fimm bandarískar Boeing C-17 Globemaster herflutningavélar auk Boeing 747 flugvélar flughersins fylgja bandarísku F-15 Eagle orustuþotunum vegna loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins, sem hefst hérlendis á morgun. Orustuþoturnar eru allar komnar til Keflavíkurflugvallar og von var á síðustu flutningaþotunum í dag, samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar, sem af hálfu Íslands annast framkvæmd verkefnisins í samvinnu við Isavia.
Bandaríska flugsveitin flaug til landsins frá Bretlandi með fjórtán F-15 orustuþotur. Búast má við að þær hefji sig til flugs frá Keflavík í fyrramálið.

Auk Suðurnesjamanna munu Eyfirðingar og Héraðsbúar líklega verða varir við orustuþoturnar næstu vikuna en gert er ráð fyrir aðflugsæfingum á varaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum fram til 16. október, ef veður leyfir. Áformað er að loftrýmisgæslunni ljúki fyrir lok mánaðarins.
Allt að 250 liðsmenn flughersins taka þátt í verkefninu auk starfsmanna frá stjórnstöð Atlantshafsbandalagsins í Þýskalandi og eistneska flughernum. Flugsveitin hefur aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli en fyrstu liðsmenn hennar komu til landsins í síðustu viku. Auk landamæraskimunar fara þeir allir í tveggja vikna vinnusóttkví að lokinni fyrstu skimun.
Fyrir ári æfði Bandaríkjaher hraða eldisneytisáfyllingu á B-2 sprengjuþotu í Keflavík.
Hér má lesa frétt af því þegar Boeing C-17 Globemaster lenti í Reykjavík fyrir sex árum:
Hér má rifja upp fræga lendingu þessarar risaþotu með Keikó á Heimaey fyrir 22 árum: