Fótbolti

Ítalía er allt í einu orðin stór markaður fyrir íslenska fótboltamenn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Fannar Baldursson í baráttunni við Jean-Daniel Akpa Akpro hjá Lazio í leik Bologna liðsins í Rómarborg í Seríu A um síðustu helgi. 
Andri Fannar Baldursson í baráttunni við Jean-Daniel Akpa Akpro hjá Lazio í leik Bologna liðsins í Rómarborg í Seríu A um síðustu helgi.  Getty/Matteo Ciambelli

Það er eftirspurn eftir íslenskum knattspyrnumönnum á Ítalíu þessi misserin en alls eru níu íslenskir leikmenn á mála hjá ítölskum fótboltaliðum í dag.

Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður á skrifstofu Stellar Nordic, ræðir þessa þróun mála við Fréttablaðið í dag og hann þakkar frammistöðu eins leikmanns fyrir það að þessar flóðgáttir hafi nú opnast.

Andri Fannar Baldursson vann sig inn í aðallið Bologna á síðustu leiktíð þrátt fyrir að vera aðeins átján ára gamall og varð um leið sjötti íslenski knattspyrnumaðurinn í sögunni til að spila í Seríu A.

Bologna hefur síðan sótt sér þrjá íslenska knattspyrnumenn til viðbótar. Ítalska félagið gekk frá kaupunum á Ara Sigurpálssyni frá HK fyrr á þessu ári og fékk einnig þá Hlyn Frey Karlsson og Gísla Gotta Þórðarson á láni frá Breiðabliki á dögunum.

„Það er auðvitað margt sem spilar inn í, það hafa ekki margir Íslendingar farið ungir út til Ítalíu en velgengni Andra Fannars á stuttum tíma hefur vakið athygli og þá líta menn í sömu átt,“ sagði Magnús Agnar Magnússon í viðtali við Kristinn Páll Teitsson í Fréttablaðinu í dag.

Magnús Agnar segir dugnaður íslensku leikmannanna vinni með þeim og þeir séu góðir í því að aðlagast og tilbúnir til að læra tungumálið. Hann vill líka meina að íslensku strákarnir séu góðir liðsmenn.

„Bologna finnst það hafa fengið mikið fyrir peninginn í tilviki Andra Fannars og hefur því leitað á sama markað. Eitt leiðir af öðru og þetta styrkir trú þeirra á leik­mönnum frá landinu, líkt og sænska félagið Norrköping sem hefur und­anfarin ár sótt á íslenskan markað með góðum árangri,“ sagði Magnús Agnar í viðtalinu en það má finna það allt hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×