Búið er að loka á öll viðskipti með hlutabréf í flugfélaginu Norwegian í norsku kauphöllinni. NRK segir frá því að von sé á tilkynningu frá félaginu.
Hlutabréfin höfðu fallið um 0,3 prósent þegar greint var frá því að viðskipti með bréf í félaginu hafi verið stöðvuð, eftir hádegi í dag.
Virði bréfanna voru 0,47 norskar krónur þegar lokað var á viðskiptin, eftir að hafa lægst farið í 0,44 norskar krónur.
Hópur starfsmanna Norwegian hefur safnast saman fyrir utan norska þinghúsið í Osló í dag og mótmælt því að ekki standi til að veita félaginu frekari ríkisaðstoð.
Líkt og á einnig við um önnur flugfélög þá hefur faraldur kórónuveirunnar haft mikil áhrif á starfsemi Norwegian.
Ekki liggur fyrir um innihald þeirrar tilkynningar frá félaginu sem nú er beðið.