Cesar Azpilicueta, fyrirliði Chelsea, hefur fyrir hönd leikmanna átt í viðræðum við forráðamenn félagsins um möguleikann á að leikmenn lækki tímabundið í launum vegna kórónuveirukrísunnar.
Þrátt fyrir að Chelsea sé eitt af stóru félögunum í ensku úrvalsdeildinni þá finnur félagið vel fyrir fjárhagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins. Samkvæmt Sky Sports er félagið í viðræðum við leikmenn um 10% launalækkun.
Enska úrvalsdeildin stakk upp á því að leikmenn deildarinnar tækju á sig 30% launalækkun en samtök leikmanna samþykktu það ekki. Aðeins leikmenn West Ham og Southampton hafa samþykkt launalækkun en Arsenal á einnig í viðræðum við sína leikmenn.
Óvíst er hvort og hvenær hægt verður að ljúka keppnistímabilinu í úrvalsdeildinni en hlé var gert 13. mars. Samkvæmt Sky gæti mótið í fyrsta lagi hafist að nýju 8. júní en mörg félög vilja að tryggt sé að því verði lokið 30. júní, vegna samninga við leikmenn og auglýsendur.