Enska úrvalsdeildarliðið Chelsea hefur gefið út að hvorki leikmenn né starfsfólk félagsins muni taka á sig launalækkun eða launaskerðingu í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Áður hafði félagið gefið út að það myndi ekki nýta sér neyðarúrræði stjórnvalda.
Forráðamenn félagins hafa átt í viðræðum við leikmenn um að taka á sig 10 prósenta launalækkun en þær viðræður báru ekki árangur.
Í yfirlýsingu Chelsea segir að enginn muni lækka í launum en jafnframt segir að leikmenn aðalliðsins hafi verið hvattir til þess að gefa hluta af launum sínum í góð málefni.
The board of Chelsea Football Club would like to update our fans, our staff, our community and our other stakeholders of certain actions the club is taking during the coronavirus crisis...
— Chelsea FC - #StayHomeSaveLives (@ChelseaFC) April 25, 2020
Líkt og mörg önnur úrvalsdeildarfélög hefur Chelsea lagt lóð á vogarskálarnar í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn sem hefur leikið Lundúnarbúa grátt.
Hefur félagið til að mynda gefið máltíðir, bæði til starfsfólks heilbrigðisstofnana og góðgerðasamtaka. Þá hefur leikvangur félagsins, Stamford Bridge, verið nýttur til aðstoðar við heilbrigðisyfirvöld.