Kristinn hefur viðað að sér upplýsingum um hvernig Ísland stendur í alþjóðlegum samanburði þegar jarðskjálftar eru annars vegar. „Í jarðskjálftamálum þyrftum við að keppa á smáþjóðaleikunum til þess að komast á pall,“ segir hann í pistil á Facebook.
Kristinn byggir sínar upplýsingar meðal annars á skrifum Páls Einarssonar sem finna má á Vísindavefnum. Segir að jarðskjálftinn í vikunni, sem lagði undir sig umræðuna og vilja ýmsir meina að ekki sé við það búandi að flóttaleiðir úr borginni séu ekki greiðar, hafi verið frekar hófsamur á heimsmælikvarða og í raun fremur algengur.
„Samkvæmt jarðvísindariti verða 1319 skjálftar í heiminum á kvarðanum 5-5,9 eða 3-4 á hverjum degi.“
Jarðskjálftinn í vikunni var frekar hófsamur á heimsmælikvarðanum og frekar algengur. Samkvæmt jarðvísindariti verða...
Posted by Kristinn Hrafnsson on Föstudagur, 26. febrúar 2021
Eins og sjá má á mynd í hinum ísaumaða pistli Kristins af Facebook hér ofar er Ísland útnári þegar öflugir skjálftar eru annars vegar. Öflugustu jarðskjálftar á Íslandi eru yfirleitt ríflega 6 eins og skjálftarnir tveir 17. og 21. júní árið 2000. Þeir voru báðir 6,5.
„Tíðni skjálfta í heiminum á bilinu 6-6,9 er einnig talsverð eða ríflega tveir á viku (134 á ári),“ segir Kristinn og hann heldur miskunnarlaus áfram, þá í þeim skilningi að Íslendingar eru stoltir af sínum skjálftum:
„Frá því menn byrjuðu að mæla hafa stærstu skjálftar á landinu verið þrír, undan norðurströndinni 1910, á Rangárvöllum 1912 og við mynni Skagafjarðar 1963. Allir mældust 7 á Richter. Talið er að öflugasti jarðskjálfti frá landnámi hafi verið 7,1 en það er ágiskun. Sá reið yfir 1784 og átti upptök í Holtum. Jarðskjálftar af styrknum 7-7,9 eru heldur ekki svo sjaldgæfir á Jörðinni. Svona einn í mánuði eða 10-20 á ári.“