Körfubolti

NBA dagsins: Chris Paul komst í fámennan klúbb með hollí hú sendingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Paul fékk flottar móttökur eftir að hann gaf stoðsendingu númer tíu þúsund.
Chris Paul fékk flottar móttökur eftir að hann gaf stoðsendingu númer tíu þúsund. AP/Rick Scuteri

Chris Paul varð í nótt aðeins sjötti leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar sem nær að gefa tíu þúsund stoðsendingar en því náði hann í leik með Phoenix Suns á móti Los Angeles Lakers.

„Það er blessun, fyrst og fremst, að hafa spilað svona lengi. Það er eitthvað sem ég tek ekki sem sjálfsögðum hlut. Það að eru fullt af mönnum sem komu með mér inn í deildina en sem eru núna að þjálfa og geta ekki spilað,“ sagði Chris Paul.

Einu leikmennirnir sem hafa gefið fleiri stoðsendingar í NBA-deildinni en Chris Paul eru þeir John Stockton, Jason Kidd, Steve Nash, Mark Jackson og Magic Johnson.

Monty Williams, þjálfari Phoenix Suns, hrósaði leikstjórnandanum sínum. „Ég er þakklátur fyrir það að vera í kringum Chris og fá að upplifa stund eins og þessa. Þú nærð ekki tíu þúsund stoðsendingum með því bara að mæta,“ sagði Monty Williams.

Chris Paul náði tímamótunum með tilþrifasendingu en hann átti þá hollí hú sendingu á miðherjann unga Deandre Ayton sem tróð boltanum viðstöðulaust með tilþrifum.

Chris Paul átti alls 13 stoðsendingar í leiknum og er því kominn með 10004 á ferlinum. Næsti maður fyrir ofan hann er Magic Johnson með 10141 stoðsendingu. Paul á eftir 31 leik og gæti því komist upp fyrir Magic.

Paul er að gefa 8,7 stoðsendingar að meðaltali í leik með Phoenix Suns á þessu tímabili og hefur átt mikinn þátt í að breyta gengi liðsins sem hefur til þessa unnið 28 leiki en tapað aðeins 13. Á síðustu fimm tímabilum hefur Suns liðið aðeins einu sinni unnið fleiri en 28 leiki.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá sigurleik Phoenix Suns á móti Los Angeles Lakers en einnig eru þar myndir frá sigurleikjum Boston Celtics, Brooklyn Nets og Dallas Mavericks auk bestu tilþrifa næturinnar.

Klippa: NBA dagsins (frá 21. mars 2021)
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×