„Þetta er langstysta leiðin,“ segir Hjálmar Hallgrímsson lögreglumaður á Suðurnesjum. Mikil umræða hefur skapast í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum í dag og um helgina vegna ferða fólks að gossvæðinu.
Vegalengdin mun vera um fjórir kílómetrar hvora leið og hækkunin nemur um 300 metrum samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Hjálmar segir að stikunin fari fram nú í samráði við Almannavarnir og Veðurstofu Íslands. Þar skipti meðal annars máli að ekki sé gengið um Nátthaga á leiðinni á gosstöðvarnar þar sem órói sé á því svæði.

„Við teljum þetta vera öruggustu leiðina miðað við þær upplýsingar sem við höfum.“
Gul veðurviðvörun er í gildi í dag og líkur á gassöfnun á morgun.
„Vandamálið sem við glímum við í dag er að veður er vont og kalt. Svæðið er því lokað. Morgundagurinn býður upp á betra veður en þá kemur önnur hætta sem er gassöfnun.“
Hann minnir á að gossvæðinu hafi verið lokað af Almannavörnum í dag og það sé þeirra að aflétta þeirri lokun þegar tilefni sé til.

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, ræddi stöðu mála í Reykjavík síðdegis í dag. Hann segir meðal annars til skoðunar að opna Suðurstrandarveg að hluta en vegurinn er lokaður sem stendur vegna skemmda.
Þá sagði Rögnvaldur ekkert til í því að mælt hefði verið með því að leggja langt í burtu til að letja fólk frá því að koma á svæðið. Þær ráðleggingar snúist um aðra hluti. Verið sé að skoða bílastæðamál varðandi gönguleiðina.
V iðtalið má heyra hér að neðan.