Sá var 4,1 og sá stærsti sem mælst hefur á Reykjanesskaga síðan 15. mars, eða fjórum dögum áður en eldgosið við Fagradalsfjall hófst.
„Hvort þetta séu bara hreyfingar á flekaskilum eða hvort þetta séu einhverjar spennubreytingar vegna gossins er svolítið erfitt að segja núna en þetta er ekkert óvenjulegur staður fyrir skjálfta og það hafa verið svona smáhrinur á þessu svæði síðustu daga,“ segir Salóme.
Stærsti eftirskjálftinn sem mældist í nótt var 3,2 að stærð.
Einhverjar vangaveltur voru uppi í Facebook-hópnum Jarðsöguvinir í gærkvöldi um að ný sprunga hefði opnast en Salóme segist ekki getað séð það á myndavélum.
„Ef það var þá var hún vel inni á því svæði sem nú er undir hrauni. Þetta er ekki ný opnun á nýju svæði,“ segir hún.
Nú í morgunsárið er suðvestlæg átt ríkjandi og berst því gasmengun yfir höfuðborgarsvæðið. Búast má við hækkuðum SO2 gildum, að sögn Óla Þórs Árnasonar vaktaveðurfræðings.
„Með kvöldinu fer hann meira í suðaustan og þá eru þetta Vogar og Reykjanesbær sem gætu fundið fyrir einhverju. En það verður sæmilegur vindur og úrkoma og það kæmi á óvart ef það mældust há gildi,“ segir Óli.