Körfubolti

NBA dagsins: Áhorfendur í fyrsta sinn í 409 daga

Valur Páll Eiríksson skrifar
Curry hefur verið á mikilli siglingu undanfarið.
Curry hefur verið á mikilli siglingu undanfarið. EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO

Stuðningsmenn Golden State Warriors gátu stutt við sitt lið af pöllunum í fyrsta sinn í 409 daga í nótt. Þeir studdu sitt lið til sigurs gegn Denver Nuggets.

Áhorfendabann hefur verið í gildi í San Francisco í rúmt ár, eða frá því að COVID-19 fór að láta á sér kræla þar í borg í fyrra. Ástandið virðist þó á réttri leið vestanhafs og voru tæplega 2000 manns samankomin í stúkunni í gærkvöld.

„Það var svo góð orka í húsinu í kvöld sem minnir okkur á það sem við höfum saknað,“ sagði Steve Kerr, þjálfari Golden State og bætti við: „Þetta voru aðeins um tvö þúsund en tilfinningin var eins og það væru miklu fleiri. Þetta var kærkomin sjón.“

„Það er öðruvísi spenna innan og utan vallar,“ sagði Stephen Curry, stjarna Golden State-liðsins, um endurkomu fólks á pallana. Curry hélt stutta þakkarræðu fyrir áhorfendur fyrir leik.

Curry átti ekki sinn besta dag í síðasta leik Golden State þar sem hann skoraði aðeins úr sjö af 25 skotum sínum í 118-114 tapi fyrir Washington Wizards. Hann virtist enn kaldur í upphafi leiks gegn Denver og setti aðeins sjö stig í fyrri leikhlutunum tveimur.

Hann kom þó endurnærður til leiks í síðari hálfleik þar sem hann skoraði 25 stig, því 32 alls í öruggum 118-97 sigri. Hann hefur því skorað yfir 30 stig í 12 af síðustu 13 leikjum, þar sem það mistókst aðeins gegn Washington.

Golden State mun njóta stuðnings af pöllunum í baráttu sinni um umspilssæti næstu vikur. Liðið á átta af síðustu tólf leikjum sínum í deildinni á heimavelli. Liðið er sem stendur í 9. sæti Vesturdeildarinnar með 30 sigra og 30 töp. Efstu sex liðin fara beint í úrslitakeppnina en þau í sætum 7-10 í umspil um sæti þar.

Helstu tilþrif gærkvöldsins má sjá að neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×