Körfubolti

Gríska undrið náði ekki að klára fyrstu mínútuna og Porter skoraði fimmtíu

Sindri Sverrisson skrifar
Giannis Antetokounmpo virtist þjáður þegar hann féll í gólfið.
Giannis Antetokounmpo virtist þjáður þegar hann féll í gólfið. AP/Mark Mulligan

Giannis Antetokounmpo lék aðeins 46 sekúndur í tapi Milwaukee Bucks gegn lakasta liði NBA-deildarinnar, Houston Rockets, í nótt. Hinn tvítugi Kevin Porter skoraði 50 stig fyrir Houston.

Antetokounmpo missti fyrir skömmu af sex leikjum vegna meiðsla og óvíst var með þátttöku hans í leiknum í nótt vegna ökklameiðsla. Grikkinn byrjaði engu að síður leikinn en strax á fyrstu mínútu, þegar hann hljóp að körfunni, steig hann á fót Kelly Olynyk og meiddist í ökklanum.

Óvíst er hve alvarleg meiðslin eru en þjálfari Bucks, Mike Budenholzer, sagði að meta þyrfti stöðuna og að kannski yrði hægt að svara einhverju í dag um hve lengi Antetokounmpo yrði frá keppni.

Mikil hætta virðist þó á því að Antetokounmpo missi af leikjunum tveimur við Brooklyn Nets sem eru handan við hornið. Með sigri í báðum leikjum á Milwaukee enn möguleika á efsta sætinu í austurdeild en tapið í nótt skemmir reyndar fyrir liðinu sem er í 3. sæti.

Þetta var aðeins sextándi sigur Houston á tímabilinu en hinn tvítugi Porter á allan heiðurinn að sigrinum. Porter hafði mest skorað 30 stig í leik í NBA-deildinni og sagðist sjálfur ekki hafa skorað 50 stig í leik síðan í fjórða bekk.

„Eftir að ég sá þriðja þriggja stiga skotið fara niður þá vissi ég að þetta yrði einstakt kvöld. Þetta var í mínum höndum og ég hélt bara áfram að sækja, og þetta varð að góðu kvöldi,“ sagði Porter sem auk þess átti 11 stoðsendingar og er yngsti leikmaðurinn í sögu NBA til að ná að lágmarki 50 stigum og 10 stoðsendingum í einum leik.

Úrslitin í nótt:

  • Detroit 105-115 Dallas
  • Indiana 113-130 Brooklyn
  • Houston 143-136 Milwaukee
  • Minnesota 126-114 Golden State
  • Oklahoma 95-109 New Orleans
  • Denver 121-111 Toronto
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×