Viðskipti erlent

Framleiðandi Marlboro býður yfir milljarð punda í úðalyfjafyrirtæki

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Philip Morris er tíundi söluhæsti sígarettuframleiðandi heims.
Philip Morris er tíundi söluhæsti sígarettuframleiðandi heims.

Tóbaksrisinn Philip Morris hefur hækkað tilboð sitt í lyfjafyrirtækið Vecture eftir að keppinauturinn, Carlyle-fjárfestingasjóðurinn, bauð 958 milljónir punda. Boð Philip Morris hljóðar upp 1,65 pund á hlut, eða yfir einn milljarð punda.

Vectura framleiðir lyf og tæki sem notuð eru við öndunarfærasjúkdómum en Philip Morris er tíundi söluhæsti sígarettuframleiðandi heims. Fyrirtækið á meðal annars vörumerkið Marlboro.

Forsvarsmenn Vectura hafa lýst yfir stuðningi við tilboð Carlyle og segja mögulegt eignarhald Philip Morris vekja óvissu um framtíð fyrirtækisins. 

Þeir eru nú í samstarfi við breska lyfjafyrirtæið Inspira um þróun á úðalyfi gegn Covid-19.

Talsmenn Philip Morris segja fyrirtækið hins vegar hafa í huga að reka Vectura áfram sem sjálfstæða einingu og sem helstu stoð úðalyfjarekstrar síns.

Þeir tilkynntu á dögunum að forsvarsmenn fyrirtækisins hygðust hætt að selja sígarettur í Bretlandi innan tíu ára og einblína heldur á aðrar valkosti, til dæmis hitað tóbak. Var gefið í skyn í yfirlýsingu frá Philip Morris að fyrirtækið myndi fagna banni gegn sölu sígaretta.

Samtök sem berjast fyrir heilsu og heilbrigði hafa lýst yfir efasemdum um yfirlýsingar fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×