Körfubolti

Jón Axel hitti áfram illa í tapi Phoenix Suns í Sumardeild NBA í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson hefur verið óheppinn með skotin sín í leikjunum í Las Vegas.
Jón Axel Guðmundsson hefur verið óheppinn með skotin sín í leikjunum í Las Vegas. Getty/Jürgen Kessler

Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson spilaði með Phoenix Suns í nótt þegar liðið tapaði naumlega á móti Cleveland Cavaliers í Sumardeild NBA í Las Vegas.

Cavaliers vann leikinn 88-85 og endaði þar með tveggja leikja sigurgöngu Suns liðsins á mótinu.

Jón Axel spilaði í sextán mínútur í leiknum og var með fimm stig, þrjú fráköst og þrjár stoðsendingar á þeim.

Jón hélt hins vegar áfram að hitta mjög illa. Hann hitti aðeins úr 1 af 10 skotum sínum í leiknum og öll fjögur þriggja stiga skot hans misfórust. Hann hitti aftur á móti úr 3 af 4 vítaskotum.

Jón Axel hefur spilað í fjórum síðustu leikjum Phoenix Suns í Las Vegas en skotin hafa ekki verið að detta hjá honum.

Hann er aðeins með sextán prósent skotnýtingu (4 af 25) og hefur klikkað á tólf af þrettán þriggja stiga skotum sínum í leikjunum fjórum.

Jón hefur aftur á móti hækkað stigaskor sitt með hverjum leik úr einu stigi á móti Utah Jazz, í þrjú stig á móti Denver Nuggets, í fjögur stig á móti Portland Trail Blazers og hann skoraði síðan eins og áður sagði fimm stig á móti Cleveland Cavaliers í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×