Líkt og komið hefur fram boðaði Félag íslenskra flugumferðarstjóra til verkfalls eftir um tólf klukkustunda fund með fulltrúum Isavia í nótt. Vinnustöðvunin er fyrirhuguð næsta þriðjudag en náist ekki samningar fyrir þann tíma mun allt millilandaflug fara úr skorðum og stöðvast í fimm tíma.
Félagið boðaði síðast til vinnustöðvunar árið 2019 en náðu samningum áður en til hennar kom. Þá var samið um sautján þúsund króna hækkun 1. janúar 2020 og átján þúsund króna hækkun 1. apríl 2020. Að aukið var samið um að félagið myndi skuldbinda sig til að grípa ekki til vinnustöðvana í skiptum fyrir sérstakt álag sem nam 4,5 prósentum af launum.
Kjarasamningurinn féll úr gildi um síðustu áramót og boðað var til vinnustöðvunar eftir um sex mánaða kjaraviðræður. Viðræðurnar stranda á samningstíma og launaprósentum, að sögn formanns félagsins.
Bjarni segir ekki tilefni til að grípa inn í kjaradeiluna líkt og staðan sé nú. „Þetta er bara alvarlegt mál og það er alvarlegt hversu oft við endum í beitingu verkfallsréttar á Íslandi miðað við það sem tíðkast víða annars staðar. En það er annað og stærra mál og hefur með vinnumarkaðsmódelið að gera og hlutverk ríkissáttasemjara, en í þessu tilviki er enn tími til stefnu og ég trúi ekki öðru en að menn leggi í þá vinnu sem þarf til þess að menn nái saman,“ segir hann.
„Augljóslega þegar alþjóðaflugið á í hlut þá varðar þetta svo marga Íslendinga og svo mikilvæga hagsmuni fyrir okkur öll að það er ekkert annað í boði en að aðilarnir haldi áfram að tala saman, finnst mér.“

„Dapurlegar fréttir“
Vinnustöðvunin myndi hafa mest áhrif á Icelandair af þeim flugrekstraraðilum sem starfa í Keflavík, en flugfélagið er með sjö komur og fjórtán brottfarir á áætlun, að sögn Jens Þórðarsonar, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Icelandair.
„Þetta eru mjög dapurlegar fréttir. Við störfum í atvinnugrein ferðaþjónustu sem hefur orðið fyrir ótrúlegum áföllum undanfarið, þúsundir starfsmanna hafa misst vinnuna eða þurft að taka á sig kjaraskerðingar í ferðaþjónustu. Ekki bara hjá Icelandair heldur hjá öllum ferðaþjónustufyrirtækjum og Isavia fyrirtækinu sem flugumferðarstjórar vinna hjá,“ segir Jens.
„Það er að bera í bakkafullan lækinn að þurfa að taka á sig frekari raskanir og óvissu núna og hefur í för með sér mjög slæm áhrif á ferðaþjónustuna og ímynd Íslands sem ferðaþjónustulands. Þess vegna er það okkar einlæga hvatning til þeirra að setjast að borðinu áður en að þessu kemur.“