Körfubolti

CP3 sá þriðji gjafmildasti í sögunni

Sindri Sverrisson skrifar
Chris Paul með eina af sínum frábæru sendingum í sigrinum gegn New Orleans Pelicans í nótt.
Chris Paul með eina af sínum frábæru sendingum í sigrinum gegn New Orleans Pelicans í nótt. AP/Ross D. Franklin

Chris Paul færði nafn sitt ofar á lista í sögubókum NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt með mögnuðum seinni hálfleik í 112-100 sigri Phoenix Suns á New Orleans Pelicans.

Eftir frekar slakan fyrri hálfleik endaði CP3, eins og Paul er kallaður, með heilar 18 stoðsendingar í leiknum og 14 stig.

„Það er frekar svalt að fá að fylgjast með svona mikilfengleika,“ sagði Monty Williams, þjálfari Phoenix.

Þar með er Paul búinn að gefa 10.346 stoðsendingar á ferlinum og kominn upp fyrir þá Mark Jackson og Steve Nash. Aðeins tveir menn hafa gefið fleiri stoðsendingar í sögu deildarinnar og Paul, sem er 36 ára, á ansi langt í land með að ná þeim. Jason Kidd gaf 12.091 stoðsendingu en enginn toppar John Stockton sem gaf 15.806 stoðsendingar á sínum ferli.

Paul komst sömuleiðis upp í 45. sæti yfir flest stig í sögu deildarinnar og er með 20.056 stig.

Í Los Angeles unnu heimamenn í Lakers nauman sigur á Houston Rockets, 119-117, í annarri rimmu liðanna í þessari viku. Eftir öruggan sigur Lakers í fyrri leiknum slapp liðið með skrekkinn í nótt þegar Kevin Porter Jr. átti þriggja stiga skot í hringinn þegar lokaflautan gall.

LeBron James skoraði 14 af 30 stigum sínum í lokaleikhlutanum. Russell Westbrook og Anthony Davis skoruðu 27 stig hvor í leiknum.

Úrslitin í nótt:

  • Detroit 89-117 Milwaukee
  • Dallas 110-125 Miami
  • Utah 119-113 Sacramento
  • Phoenix 112-100 New Orleans
  • LA Lakers 119-117 Houston
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×