Körfubolti

Býflugurnar stungu Curry og félaga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Charlotte Hornets vann góðan sigur á Golden State Warriors í nótt.
Charlotte Hornets vann góðan sigur á Golden State Warriors í nótt. getty/Jacob Kupferman

Charlotte Hornets varð í nótt aðeins annað liðið til að vinna Golden State Warriors í NBA-deildinni á tímabilinu. Lokatölur í leik liðanna í Charlotte, 106-102.

Fyrir leikinn í nótt hafði Golden State unnið sjö leiki í röð og ellefu af fyrstu tólf leikjum sínum á tímabilinu.

Liðsheildin var öflug hjá Charlotte og sex leikmenn skoruðu tíu stig eða meira. Miles Bridges skoraði 22 stig, LaMelo Ball 21 og Terry Rozier tuttugu. Þetta var þriðji sigur Charlotte í röð.

Andrew Wiggins skoraði 28 stig fyrir Golden State og Stephen Curry 24 stig. Sá síðarnefndi var hins vegar óvenju kaldur og klikkaði meðal annars á tíu af þrettán þriggja stiga skotum sínum.

Trae Young skoraði 42 stig þegar Atlanta Hawks vann meistara Milwaukee Bucks, 120-100. Þetta var fyrsti sigur Haukanna í sjö leikjum.

Auk þess að skora 42 stig tók Young átta fráköst og gaf tíu stoðsendingar. John Collins skoraði nítján stig. Giannis Antetokounmpo skoraði 26 stig fyrir Milwaukee sem hefur farið rólega af stað og tapað átta af fyrstu fjórtán leikjum sínum á tímabilinu.

Kevin Durant sneri aftur á sinn gamla heimavöll og skoraði 33 stig þegar Brooklyn Nets vann Oklahoma City Thunder, 96-120. Stuðningsmenn Oklahoma púuðu stanslaust á Durant en hann lét það ekki á sig fá og skoraði 33 stig í þriðja sigri Brooklyn í röð. Patty Mills skoraði 29 stig og setti niður níu þriggja stiga skot og James Harden var með sextán stig og þrettán stoðsendingar.

Úrslitin í nótt

  • Charlotte 106-102 Golden State
  • Atlanta 120-100 Milwaukee
  • Oklahoma 96-120 Brooklyn
  • Houston 89-115 Phoenix
  • Denver 124-95 Portland
  • LA Clippers 90-100 Chicago

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×