Bæta þurfi verulega í útgjöld ríkisins til almannaþjónustunnar og einungis sé boðuð óveruleg aukning í frumvarpinu. Þá sé ákalli eftir auknu fé í heilbrigðisþjónustuna ekki svarað.
„Þannig eru til að mynda aukin framlög til heilbrigðisþjónustunnar að stærstum hluta vegna heimsfaraldursins og byggingu nýs Landspítala en ekki til að styrkja heilbrigðiskerfið í heild sinni,“ segir í tilkynningu frá BSRB. Þar að auki sé ekki slakað á aðhaldskröfum til mikilvægra ríkisstofnanna.
„Eftir vanfjármögnun sem má rekja aftur um áratug er kominn tími til að blása til sóknar og grípa til aðgerða sem fela í sér raunverulega lífskjarasókn. Það er gert með því að styrkja almannaþjónustuna til að standa undir sterkri velferð og tryggja að ekki verði gengið enn frekar á andlega og líkamlega heilsu starfsfólksins sem veitir þjónustuna.“

Þurfi að endurskoða fyrirkomulag barnabóta
BSRB bætir við að öruggt húsnæði á viðráðanlegu hafi verið ein stærsta krafa launafólks en engin breyting sé boðuð á framlögum til húsnæðisuppbyggingar í fjárlagafrumvarpinu. Slíkt valdi miklum vonbrigðum.
„Aukning ráðstöfunartekna tekjulægstu hópanna sem boðuð er í fjárlagafrumvarpinu er til bóta en eins prósents hækkun á örorkulífeyri umfram verðlag mun ekki hafa mikil áhrif á lífskjör öryrkja og því síður hjálpa þeim sem fastir eru í fátæktargildru að komast út úr vandanum,“ segir í tilkynningu.
Hækkun skerðingarmarka barnabóta sé jákvæð en þó þurfi að ráðast í heildarendurskoðun á barnabótakerfinu.
„Auka verður framlög til almenna íbúðakerfisins, hækka greiðslur almanna- og atvinnuleysistrygginga til að draga úr tekjuójöfnuði, og draga verður stórlega úr tekjutengingum barnabótakerfisins þannig að bæturnar skerðist aðeins í allra hæstu tekjutíundunum.“