Handbolti

Danir fóru illa með væng­brotna Hollendinga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hollendingum gekk illa að stöðva Mathias Gidsel í kvöld.
Hollendingum gekk illa að stöðva Mathias Gidsel í kvöld. EPA-EFE/Tamas Kovacs

Heimsmeistararnir áttu ekki í miklum vandræðum með vængbrotið lið Hollands er liðin mættust í milliriðli á Evrópumótinu í handbolta í kvöld. Danir unnu leikinn með tólf marka mun, lokatölur 35-23.

Eins og við Íslendingar þekkjum ágætlega hefur kórónuveiran litað Evrópumótið allhressilega til þessa. Erlingur Richardson, þjálfari Hollands, nældi sér í veiruna og var því ekki á hliðarlínunni í kvöld.

Hvort það hefði hjálpað til er óvíst enda Danir með ógnarsterkt lið og ekki enn stigið feilspor á mótinu.

Það var í raun ljóst strax frá upphafi leiks að Danir myndu fara með sigur af hólmi en þeir leiddu með níu mörkum í hálfleik, staðan þá 21-12. Á endanum var að svo að Danmörk vann tólf marka sigur 35-23.

Mathias Gidsel fór hamförum í danska liðinu en hann skoraði níu mörk úr aðeins níu skotum. Þar á eftir komu Mikkel Hansen og Jóhan á Plógv Hansen með sjö mörk hvor. Sá síðarnefndi á ættir að rekja til Færeyja. 

Niklas Landin og Kevin Møller vörðu svo samtals 16 skot í markinu. Hjá Hollendingum var Dani Baijens markahæstur með sex mörk.

Danmörk er enn með fullt hús stiga á mótinu og búið að tryggja sæti sitt í undanúrslitum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×