Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kynjafræðikennari og Sigríður Dögg Arnardóttir kynfræðingur tókust á um kyrkingar í kynfræðslu í Reykjavík síðdegis fyrr í dag.
Hanna Björg hafði áður beint spjótum sínum að Siggu Dögg í aðsendri grein á Vísi í gær sem Hanna skrifaði ásamt Maríu Hjálmtýsdóttur kynjafræðikennara. Þær gagnrýndu harðlega að kyrkingar væru kenndar í skólum landsins.
„Auðvitað vorum við hvassyrtar og stóryrtar og allt það. Stundum þarf bara að tala hátt svo að fólk hlusti,“ segir Hanna Björg.
Hún bætir við að fara þurfi hægt í sakirnar og eins og staðan er í dag, með lítilli áherslu á kynfræðslu í námskrám, þurfi að fara hægt í sakirnar. Það þýði ekki að byrja á því að kenna kyrkingar: „Kyrking er auðvitað ofbeldi [...] Ég skipti mér ekkert að því hvað fólk er að gera heima hjá sér en ég er að tala um börn og ungmenni.“
„Þetta er ekki glæra fjögur“
Sigga Dögg áttar sig ekki alveg á því hvers vegna kynjafræðikennararnir hafi tekið upp á því að gagnrýna sig með þeim hætti sem þær Hanna og María gerðu í aðsendu greininni í gær.
„Ég kenni ekki kyrkingar, ég geri það ekki. Og það hefði verið gaman ef Hanna hefði setið einn fyrirlestur hjá mér af því ég er búin að vera að þessu í tólf ár. Þannig að það hefði líka verið skemmtilegt. Af því að ég hef aldrei kennt kyrkingar, ég hef kennt samþykki og mörk,“ segir Sigga Dögg.
Bæði Hanna Björg og Sigga Dögg eru sammála um að bæta þurfi kynfræðslu í skólum.
„Þetta er ekki glæra fjögur. Við erum ekki bara hér er píka, hér er typpi nú kyrkjum við. Þetta er ekki svoleiðis, höfum það alveg á kristaltæru. Það hafa komið upp spurningar […] og þá auðvitað fer ég ofan í saumana á því. Ég sem ábyrgur fræðari get ekki sagt: „Heyrðu ég ætla ekki að tala um það.“,“ segir Sigga Dögg í viðtalinu.
„Þetta [kyrkingar] hefur verið innan við fjögur prósent af fyrirlestrum sem ég hef verið með undanfarin tólf ár. Ég hef spurt [börnin] er þetta málefni sem við þurfum að taka fyrir og ef þau segja nei þá tek ég það ekki fyrir. Þannig að ég myndi segja að ég beri þessa spurningu fram í einum af hverjum 20 eða 25 fyrirlestrum“
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér að neðan.