Innlent

Stjórn RÚV vill vísa Ísraelum úr Euro­vision

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Tilmælin verða rædd á aðalfundi EBU í desember.
Tilmælin verða rædd á aðalfundi EBU í desember. Vísir/Vilhelm

Stjórn Ríkisútvarpsins beinir þeim tilmælum til Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva að Ísrael verði vísað úr Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, á næsta ári.

Stefán Jón Hafstein stjórnarformaður segir að tillagan hafi verið samþykkt á stjórnarfundi í dag. Fimm af níu stjórnarmönnum hafi stutt tillöguna. Í tilmælum stjórnarinnar er vísað til þess að Rússlandi hafi verið meinuð þátttaka í keppninni í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu.

Stjórn Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, kemur saman á aðalfundi dagana fjórða og fimmta desember og þar verður tillagan tekin til umræðu. Stefán segir tillöguna hafa verið lagða fram í því skyni að knýja fram afstöðu stjórnar EBU og aðildarlanda til þátttöku Ísraela.

Hann segir að með tillögunni sé ekkert sagt um mögulega þátttöku Íslands.

„Við vildum leggja inn í þá umræðu þessa tillögu þannig að það væri komin fram konkret tillaga. Við erum að knýja fram afstöðu EBU og þátttökuríkjanna. Við segjum ekkert meira um það hvað Ísland muni þá gera ef eða ef til vill,“ segir Stefán Jón Hafstein stjórnarformaður RÚV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×