Körfubolti

Þóra Kristín í „Reggie Miller ham“ í dönsku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þóra Kristín Jónsdóttir í búningi Fálkana frá Kaupmannahöfn.
Þóra Kristín Jónsdóttir í búningi Fálkana frá Kaupmannahöfn. Instagram/@aksfalconbasket

Íslenska körfuboltakonan Þóra Kristín Jónsdóttir hefur verið að gera flotta hluti með danska liðinu AKS Falcon i vetur.

Þóra Kristín og félagar í liði Fálkana komust um helgina í bikarúrslitaleikinn í Danmörku eftir 21 stigs sigur á Åbyhøj í undnaúrslitum. Með liðinu spilar líka Ástrós Lena Ægisdóttir sem lék með KR hér heima en Þóra er uppalin hjá Haukum.

Leikurinn á móti Åbyhøj á laugardaginn var tilefni til að rifja upp eina frammistöðu í vetur sem stendur upp úr hjá íslensku landsliðskonunni.

Það er nefnilega óhætt að segja að Þóra Kristín hafi farið í „Reggie Miller ham“ í leik á móti Åbyhøj IF í Åbyhallen í dönsku deildinni.

NBA körfuboltamaðurinn Reggie Miller er þekktastur fyrir það að átta stig á níu sekúndum í NBA-deildinni.

Þóra Kristín skoraði aftur á móti fjórtán stig á innan við fjórum mínútum í útileik á móti Åbyhøj. Eins og Reggie þá náði Þóra meðal annars að setja niður þrist, stela boltanum strax í kjölfarið og setja niður annan þrist.

Alls skoraði hún fjóra þrista á þessum þremur mínúturm og 43 sekúndum auk þess að skora eina laglega tveggja stiga körfu.

Þessi sýning hennar kom líka á útivelli og í fjórða leikhlutanum þar sem AKS Falcon fagnaði einum af mörgum sigrum sínum á leiktíðinni.

AKS Falcon rifjaði upp þessa ofurframmistöðu Þóru um helgina og sýndi myndband af þessum fimm körfum hennar á innan við fjórum mínútum. Það má sjá þetta myndband hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×