Handbolti

Öruggur Evrópusigur Magdeburg

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk fyrir Magdeburg í kvöld.
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk fyrir Magdeburg í kvöld. Peter Niedung/NurPhoto via Getty Images

Íslendingaliðið Magdeburg lenti ekki í miklum vandræðum er liðið tók á móti Gorenje í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld. Liðið vann öruggan tíu marka sigur, 34-24.

Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson leika með liði Magdeburg, en þeir skoruðu báðir þrjú mörk í kvöld.

Magdeburg tók forystuna snemma og náði mest níu marka forskoti í fyrri hálfleik. Liðið fór með átta marka forystu inn í hálfleikinn í stöðunni 20-12.

Heimamenn í Magdeburg gátu því leyft sér að slaka örlítið á í síðari hálfleik, en þrátt fyrir það juku þeir forskot sitt lítillega. Þeir unnu að lokmu öruggan tíu marka sigur, 34-24.

Magdeburg situr í efsta sæti C-riðils með 13 stig eftir sjö leiki, tíu stigum meira en Gorenje sem situr í næst neðsta sæti.

Á sama tíma heimsóttu Kristján Örn Kristjánsson og félagar hans í Aix lið Nexe í sama riðli. Lítið hefur gengið hjá Aix í Evrópudeildinni, en liðið mátti sætta sig við fjögurra marka tap í kvöld, 33-29.

Kristján og félagar sitja á botni riðilsins með aðeins eitt stig.

Þá unnu Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG nauman eins marks sigur gegn Chekhovskiye Medvedi, 27-26. Líkt og oft áður á þessu tímabili þurfti Viktor að gera sér það að góðu að sitja á bekknum, en liðið trónir á toppi B-riðils með 11 stig eftir sjö leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×