Körfubolti

Álftanes vann oddaleikinn í Hornafirði

Atli Arason skrifar
Álftanes mun mætta Hetti í úrslitaleiknum.
Álftanes mun mætta Hetti í úrslitaleiknum. Facebook/Höttur Körfubolti

Álftanes vann Sindra í oddaleik undanúrslitanna í úrslitakeppni fyrstu deildar karla með þriggja stiga sigri, 77-80. Álftanes og Höttur mætast í úrslitaleiknum um síðasta lausa sætið í Subway-deild karla.

Heimamenn hófu leikinn af krafti og komust snemma í fimm stiga forystu en gestirnir frá Álftanes hrifsuðu forskotið til sín þegar leikhlutinn var hálfnaður. Sindra menn gáfust þó ekki upp og unnu fyrsta leikhluta 22-18.

Annar leikhluti var jafn og spennandi og liðin skiptust á því að leiða leikinn alls fjórum sinnum. Bæði lið skoruðu 26 stig í öðrum leikhluta og Sindri fór því með fjögurra stiga forskot inn í hálfleikinn, 48-44.

Sindri komst mest í 12 stiga forystu í miðjum þriðja leikhluta en 12 stiga áhlaup gestanna undir lok leikhlutans varð til þess að Álftanes leiddi með einu stigi fyrir síðasta fjórðunginn, 60-61.

Heimamenn skoruðu ekki fyrstu stigin sín í síðasta leikhlutanum fyrr en hann var tæplega hálfnaður með þriggja stiga körfu frá Gísla Þórarni sem minnkaði forskot Álftanes niður í tvö stig. Þegar tæp mínúta var eftir þá leiddi Sindri með tveimur stigum en síðustu fimm stig leiksins komu frá gestunum sem unnu viðureignina 77-80 og einvígið þar með 3-2.

Álftanes mun því mæta Hetti í úrslitaviðureigninni um síðasta lausa sætið í Subway-deild karla. Fyrsta leikurinn verður á Egilsstöðum þann 16. apríl.

Friðrik Anton Jónsson, leikmaður Álftanes, var stigahæsti leikmaður vallarins með 21 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×