Erlent

Fimmta manndrápið á Grænlandi frá áramótum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Um tvö þúsund manns búa í Tasiilaq, stærsta bænum á austurströnd Grænlands.
Um tvö þúsund manns búa í Tasiilaq, stærsta bænum á austurströnd Grænlands. Getty

Einn maður hefur verið handtekinn í bænum Tasiilaq á Austur-Grænlandi eftir að karlmaður fannst látinn þar í nótt. Grænlenska lögreglan rannsakar málið sem manndráp.

Í fréttatilkynningu lögreglunnar kemur fram að um tvöleytið í nótt hafi henni verið tilkynnt um látinn mann á heimilsfangi í bænum. Vegna aðstæðna á vettvangi og frumrannsóknar sé unnt að skýra frá því að um manndráp sé að ræða. Unnið sé að því að bera kennsl á hinn látna, að því er fram kemur í fjölmiðlunum KNR og Sermitsiaq.

Lögreglan hefur girt af svæði við Naasuliartarpimmut í Tasiilaq vegna rannsóknar málsins. Almenningur er beðinn um að virða bannið og veita lögreglu vinnufrið. Þá hefur verið kallað eftir aðstoð rannsóknarlögreglu í Danmörku. Nánari upplýsingar voru ekki veittar um aðstæður á vettvangi né um þann sem er í haldi lögreglu.

Í Sermitsiaq kemur fram að þetta er fimmta manndrápið á Grænlandi frá áramótum, á aðeins fjórum mánuðum. Undanfarin tvö ár hafi alls verið fimm manndráp á ári í landinu.

Bærinn Tasiilaq var áður þekktur sem Ammassalik. Reglubundnar flugsamgöngur eru þangað við Ísland um Kulusuk, þar sem flugvöllurinn er.

Fjallað var um háa tíðni alvarlegra ofbeldisglæpa á Grænlandi í þessari frétt Stöðvar 2 fyrir fimm árum:


Tengdar fréttir

Danir senda neyðar­teymi til Tasi­ilaq

Umræða um háa tíðni sjálfsvíga, kynferðisbrota og ofbeldis gegn börnum í Tasiilaq hefur verið áberandi eftir að heimildarmyndin Bærinn þar sem börn hverfa var sýnd í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×