Handbolti

Magdeburg í undanúrslit Evrópudeildarinnar | Lærisveinar Aðalsteins úr leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi skoraði tvö mörk fyrir Magdeburg í kvöld.
Ómar Ingi skoraði tvö mörk fyrir Magdeburg í kvöld. vísir/Getty

Íslendingaliðið Magdeburg er á leið í undanúrslit Evrópudeildarinnar í handbolta eftir tveggja marka sigur gegn Nantes í kvöld, 30-28. Á sama tíma fengu lærisveinar Aðalsteins Eyjólfssonar í Kadetten skell gegn Wisla Plock og eru úr leik.

Magdeburg vann fyrri leikinn gegn Nantes með þriggja marka mun og liðið var því í fínni stöðu fyrir heimaleikinn í kvöld. Liðið byrjaði af miklum krafti og náði mest sex marka forystu í fyrri hálfleik, en staðan var 16-12 þegar gengið var til búningsherbergja.

Magdeburg gerði svo út um einvígið þegar liðið náði níu marka forskoti um miðjan síðari hálfleikinn. Íslendingaliðið gaf svo eftir og Nantes komst aftur inn í leikinn, en Magdeburg vann að lokum tveggja marka sigur og er á leið í undanúrslit eftir samanlagðan fimm marka sigur, 58-53.

Þá máttu lærisveinar Aðalsteins Eyjólfssonar í Kadetten þola 13 marka tap er liðið heimsótti Wisla Plock, 35-22. Heimamenn í Wisla Plock unnu fyrri leik liðanna 33-31 og einvígið því samanlagt 68-53.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×