Skoðun

Háskóli fyrir alla - Við viljum mennta okkur!

Útskriftarnemendur úr starfstengdu diplómanámi skrifar

Við erum útskriftarnemendur úr starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun. Okkur langar að vekja athygli á mikilvægi menntunar og námsframboðs fyrir fólk með þroskahömlun. Námið sem við erum að klára er á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og er fyrir fólk sem hefur áhuga á að mennta sig og undirbúa sig fyrir tómstunda- og félagsstarf, leikskólastarf og störf sem snúa að réttinda- og hagsmunabaráttu fatlaðs fólks.

Námið er án aðgreiningar og við sækjum námskeið með öðrum háskólanemum. Lykillinn að því að hafa námið án aðgreiningar er að kennarar og annað starfsfólk aðlagi námsefni að hverjum nemanda. Til þess að geta verið í háskólanámi þurfum við stuðning og verkefnatíma þar sem við sinnum heimanámi og verkefnavinnu. Að vera í stórum námskeiðum með öðrum nemendum á Menntavísindasviði hefur verið frábært og gengið mjög vel. Hópavinna stendur uppúr – í henni kynnist maður mismunandi fólki. Námið er yfirleitt spennandi, maður er alltaf að læra eitthvað nýtt sem kemur að góðum notum í vinnunni og í framtíðinni.

En í háskólanámi er maður ekki bara að læra námsefnið. Maður fær reynslu, þroskast, styrkist í félagsfærni og mannlegum samskiptum og kynnist fólki sem hefur svipuð áhugamál. Þannig hefur maður meiri möguleika á því að taka þátt í samfélaginu. Þess vegna er svo mikilvægt að allir hafi möguleika á námi á öllum skólastigum. Enda stendur í Samningi Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólksallir eigi að hafa jöfn tækifæri á menntun án aðgreiningar á öllum skólastigum. Samt komast bara fáir inn í starfstengda diplómanámið, miklu færri en sækja um. Því köllum við eftir miklu meira framboði á háskólanámi fyrir fólk með þroskahömlun. Það ætti að vera námsleið, eins og sú sem við erum á, á fleiri sviðum háskólans. Þannig hefðu miklu fleiri tækifæri á því að mennta sig á sviði sem þeir hafa áhuga á. Það er nauðsynlegt að gefa okkur aðgang að fleiri námskeiðum og námsleiðum í Háskólanum. Mörg okkar sem eru að útskrifast hafa áhuga á að halda áfram að mennta sig og myndu vilja halda áfram í háskólanáminu – en að loknu starfstengda diplómanáminu eru engir möguleikar á því.

Háskólanám þýðir ótalmargt fyrir okkur: frelsi, félagslíf, lærdómur, persónulegur þroski, tækifæri, meira sjálfstraust og fleiri möguleikar á vinnumarkaði og svo mætti lengi áfram telja.

Við viljum mennta okkur!

Útskriftarnemendur úr starfstengdu diplómanámi

Aldís Ósk Björnsdóttir Diego, Birkir Eiðsson, Dalrós Líf Ólafsdóttir, Elfar Franz Birgisson, Eyrún Birta Þrastardóttir, Felix Magnússon, Hrannar Halldórsson Bachman, Karen Sól Káradóttir, Kristjana Guðmundsdóttir, Laufey María Villhelmsdóttir, Matthildur Inga Samúelsdóttir, Nikola Colic, Róbert Alexander Erwin, Sveinbjörn Benedikt Eggertsson og Þórey Ísafold Magnúsdóttir.

Útskriftarnemendur standa fyrir ráðstefnu sem hefur yfirskriftina Við viljum mennta okkur! þann 10. maí klukkan 14.00-17.00 á Litla-Torgi á Háskólatorgi. Við hvetjum öll áhugasöm til að mæta!

Útskriftarnemendur úr starfstengdu diplómanámi.








Skoðun

Sjá meira


×