Körfubolti

„Er harðasti Valsarinn í heiminum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Má ég heyra?
Má ég heyra? vísir/bára

Kristófer Acox varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn með Val í gær og í fjórða skiptið alls. Hann var að vonum í skýjunum þegar Ríkharð Óskar Guðnason ræddi við hann eftir sigurinn á Tindastóli, 73-60, í oddaleik í Origo-höllinni.

„Það er alltaf erfitt að gera upp á milli titla en ég set hann alveg efst með hinum. Þetta er ólýsanleg tilfinning, að fá að vera Íslandsmeistari fyrir framan þessa áhorfendur. Þetta er gjörsamlega geðveikt,“ sagði Kristófer.

Tæplega fjögurra áratuga bið Vals eftir Íslandsmeistaratitli lauk loks í gær. Kristófer segir sérstakt að vera hluti af liðinu sem braut þennan þykka ís.

„Þetta er algjör heiður. Við vorum vonsviknir að detta út í fyrra og ætluðum okkur titilinn. Við vissum að við ættum að rífa þetta félag upp á hæsta plan. Það var helvíti erfitt að labba út og sjá alltaf 1983 á veggnum,“ sagði Kristófer og vísaði til meistaraveggsins fræga á Hlíðarenda.

„Þetta hefur verið markmiðið frá byrjun og það er geggjað að fá að upplifa þetta núna eftir alla þessa mánuði.“

Klippa: Viðtal við Kristófer Acox

Kristófer segir að Valsmenn séu ekki saddir og ætli sér að byggja ofan á árangur tímabilsins. „Algjörlega. Maður vill alltaf verja titilinn og halda áfram. Allir sem upplifðu þetta núna vilja pottþétt upplifa þetta aftur. Við erum að reyna að búa til alvöru stemmningu. Horfum í kringum okkur. Þetta er komið til að vera,“ sagði Kristófer.

En hversu mikill Valsari er Kristófer orðinn?

„Ég er harðasti Valsarinn í heiminum,“ svaraði Kristófer sem skoraði þrettán stig og tók nítján fráköst í oddaleiknum í gær.

Kristófer er uppalinn hjá KR en yfirgaf félagið 2020 vegna launadeilu sem fór fyrir dómstóla. KR var á endanum gert að greiða honum tæpar fjórar milljónir króna vegna vangoldinna launa.

Í úrslitakeppninni var Kristófer með 11,6 stig og 10,1 fráköst að meðaltali í leik. Í deildarkeppninni var hann með 15,0 stig og 11,3 fráköst að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×