Land reis um alls 5,0-5,5 sentímetra frá 28. apríl til 28. maí, með tilheyrandi skjálftavirkni, en síðan þá hefur lítið sem ekkert landris mælst á svæðinu. Síðustu daga mældust um 150 til 300 skjálfta á svæðinu en tæplega 800 skjálftar mældust á sólarhring þegar mest lét.
Í ljósi þessa hefur fluglitakóða fyrir svæðið færður niður á grænan af gulum. Óvissustig almannavarna er þó ennþá í gildi, eins og fyrr segir.

Kvikuhreyfingar komi í lotum
Veðurstofa segir kvikuhreyfingar líklegustu ástæðu aukinnar virkni og landriss á svæðinu undanfarnar vikur..Sé það tilfellið bendi nýjustu gögn til þess að dregið hafi verulega úr þessum kvikuhreyfingum vestur af Þorbirni.
„Það er ljóst að ennþá er talsverð virkni á öllum Reykjanesskaganum og í raun ekki hægt að útiloka að virknin geti aukist aftur og komi í lotum eins og dæmin sanna, en hvar og hvenær er erfitt að segja til um nákvæmlega“, segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofunni.

Mikilvægast að afmarka umbrotasvæði
Í tengslum við eldsumbrotin og virknina á Reykjanesskaga hafa vísindamenn unnið líkön út frá skjálftagögnum, GPS gögnum og gervihnattamyndum til að áætla staðsetningu og magn þeirrar kviku sem er á hreyfingu undir jarðskorpunni. Með þessum líkönum sé hægt að áætla hvort kvikan sé að hreyfast lárrétt eða lóðrétt og að einhverju marki afmarka möguleg umbrotasvæði ef til eldgoss kæmi.
„Þegar kemur að vöktun á Reykjanesskaganum og viðbrögðum okkar við mögulegu eldgosi má segja að það sé mikilvægara að afmarka mögulegt umbrotasvæði, frekar en að segja til um hvort að eldgos hefjist í næstu viku eða eftir fjóra mánuði“ segir Michelle Parks, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands, sem unnið hefur að líkangerðinni.
