Handbolti

Krefjast aðgerða eftir að klósett voru nefnd eftir forseta IHF

Sindri Sverrisson skrifar
Nafn Hassans Moustafa er yfir klósettunum hjá egypska íþróttafélaginu Zamalek.
Nafn Hassans Moustafa er yfir klósettunum hjá egypska íþróttafélaginu Zamalek. Skjáskot/Twitter/Getty

Egypska handknattleikssambandið hefur sent erindi til þarlendra stjórnvalda og ríkissaksóknara vegna mikillar móðgunar sem sambandið telur Hassan Moustafa, forseta alþjóðahandboltasambandsins (IHF), hafa orðið fyrir.

Moustafa hefur verið forseti IHF frá árinu 2000 og er heiðursforseti egypska sambandsins til lífstíðar. Hann er engu að síður alls ekki óumdeildur.

Á meðal þeirra sem síst eru hrifnir af Moustafa er Mortada Mansour, forseti egypska félagsins Zamalek.

Mansour er raunar það illa við Moustafa að hann lét nefna klósettaðstöðuna í íþróttamiðstöð Zamalek „Hassan Moustafa-klósettin“.

Þessi hrekkur Zamaleks féll eins og fyrr segir illa í kramið hjá egypska handknattleikssambandinu sem sagði meðal annars í yfirlýsingu:

„Hin merka egypska þjóð, leiðtogar og stjórnvöld voru undrandi að sjá birta mynd frá félagi sem er hluti af einni elstu íþróttastofnun Egyptalands, þar sem forseti Zamalek hafði látið skrifa „Hassan Moustafa-klósettin“ á salerni félagsins svo að heimurinn allur gæti séð.“

Egypska handknattleikssambandið segir að stjórnvöld verði að bregðast við þessari „móðgun“ og að henni verði ekki tekið þegjandi og hljóðalaust.

Mansour tjáði sig svo um málið á blaðamannafundi og sagðist þar aldrei hafa gefið út að klósettin væru nefnd eftir þeim Hassan Moustafa sem væri forseti IHF. Hann svaraði því þó ekki eftir hverjum þau væru þá nefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×