Viðskipti innlent

Telja að verð­bólgan rjúfi tíu prósenta múrinn

Bjarki Sigurðsson skrifar
Bergþóra Baldursdóttir er hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka.
Bergþóra Baldursdóttir er hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka.

Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,5 prósent í ágúst frá júlí. Tólf mánaða verðbólga myndi þá mælast í tíu prósentum en hún hefur ekki rofið þann múr síðan árið 2009. Hagfræðingar Landsbankans eru ósammála þessari spá.

Í nýrri verðbólguspá greiningadeildar Íslandsbanka kemur fram að VNV muni hækka um 0,5 prósent í ágúst. Þar af leiðandi myndi tólf mánaða verðbólga mælast tíu prósent. 

Samkvæmt greiningardeildinni eru það útsölulok og íbúðaverð sem skýra hækkunina að mestu. Tíu prósentin muni þó vera toppurinn á verðbólgunni og spáir deildin því að í nóvember verði verðbólgan komin niður í 9,7 prósent.

Reiknuð húsaleiga hefur hækkað um tæplega fimmtán prósent frá áramótum og mælist árshækkun á íbúðaverði nú um 25 prósent á landinu öllu. Deildin gerir ráð fyrir því að nú fari að hægja verulega á hækkunum íbúðaverðs.

Hagfræðideild Landsbankans er þó ósammála því að verðbólgan nái að rjúfa tíu prósenta múrinn. Deildin á von á því að VNV muni hækka um 0,4 prósent og því muni tólf mánaða verðbólga standa í 9,9 prósentum.

Deildin er þó sammála kollegum sínum að því leiti að uppi séu merki um kólnun á fasteignamarkaði. Þá eru deildirnar einnig sammála um það að þeir liðir sem hægja á hækkun VNV séu eldsneytiskostnaður og flugfargjöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×